Ferill 348. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Prentað upp.

Þingskjal 1718  —  348. mál.
Leiðréttur texti.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á raforkulögum, nr. 65/2003 (raforkuöryggi o.fl.).

Frá meiri hluta atvinnuveganefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund gesti frá Alcoa Fjarðaáli sf., Elmu – orkuviðskiptum ehf., HS Orku hf., HS Veitum hf., Landsneti hf., Landsvirkjun, Norðuráli ehf., Norðurorku hf., Orkubúi Vestfjarða ohf., Orkustofnun, RARIK ohf., Samtökum álframleiðenda á Íslandi – Samáli, Samtökum iðnaðarins, umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti, Veitum ohf. og Viðskiptaráði Íslands.
    Nefndinni bárust átján umsagnir um málið sem eru aðgengilegar á síðu málsins á vef Alþingis.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á raforkulögum, nr. 65/2003, með það að markmiði að styrkja raforkuöryggi almennings og smærri fyrirtækja og tryggja þeim forgang komi til skömmtunar vegna óviðráðanlegra atvika. Einnig er mælt fyrir um söfnun og miðlun upplýsinga varðandi raforkuöryggi á heildsölumarkaði sem og viðmið fyrir raforkuöryggi.
    Frumvarpið var áður flutt á 153. löggjafarþingi og var málið afgreitt frá nefndinni með áliti meiri hluta ásamt breytingartillögu (þskj. 1990, 943. mál) en náði ekki fram að ganga. Þá bárust nefndinni sex umsagnir vegna málsins auk minnisblaðs frá umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti. Málið er nú endurflutt.

Umfjöllun nefndarinnar.
Almennt.
    Við meðferð málsins fyrir nefndinni var rætt að frumvarpið væri eitt skref af mörgum sem lúta að endurskoðun ráðuneytisins á regluverki er varðar orkumál. Því er ætlað að tryggja raforkuöryggi notenda sem teljast ekki til stórnotenda og að mæla fyrir um forgangsröðun komi til þess að grípa þurfi til skömmtunar. Nefndin var upplýst um að á vegum ráðuneytisins sé unnið að því að endurskoða allt regluverk raforkumarkaðarins og stuðla með því að auknu orkuöryggi þjóðarinnar. Um margþætt langtímaverkefni er að ræða og stefnir ráðuneytið að því að leggja fram fleiri frumvörp á komandi löggjafarþingum. Meiri hlutinn hvetur til þess að vinnu ráðuneytisins sé hraðað en verkefnið er í raun þess eðlis að því lýkur aldrei.
    Að mati meiri hlutans er ljóst að eftirspurn eftir raforku mun halda áfram að aukast. Mikilvægt er að til staðar séu reglur og viðmið sem kveði skýrt á um forgangsröðun skömmtunar komi til orkuskorts. Þegar eru til staðar reglur sem er miðað við þegar upp koma ófyrirséð atvik á afmörkuðu svæði dreifiveitu. Meiri hlutinn telur að breyttu breytanda að líta megi til sambærilegra sjónarmiða þegar lagðar eru línur við ákvörðun um forgangsröðun á landsvísu vegna tímabundins fyrirsjáanlegs orkuskorts.
    Markmið raforkulaga er að stuðla að þjóðhagslega hagkvæmu raforkukerfi og efla þannig atvinnulíf og byggð í landinu. Í þessu skyni skal skapa forsendur fyrir samkeppni í vinnslu og viðskiptum raforku, með þeim takmörkunum sem nauðsynlegar reynast vegna öryggis raforkuafhendingar og annarra almannahagsmuna, eins og segir í 1. mgr. 1. gr. laganna. Meiri hlutinn undirstrikar að raforkuöryggi og tryggt framboð raforku eru grundvallarþættir í þjóðaröryggi Íslands og nauðsynleg forsenda fjölbreyttrar atvinnustarfsemi og jákvæðrar byggðaþróunar. Að lágmarka líkur á því að raforkuskortur komi upp er því mikilvægur hluti af almennri stefnu stjórnvalda í orkumálum.
    Á síðustu árum hefur nýting virkjana farið jafnt og þétt vaxandi. Eftirspurn hefur aukist mun hraðar en framboð raforku. Svigrúmið er því stöðugt minna til að bregðast við ef áföll verða í vinnslu- og flutningskerfi raforku eða ef framboð minnkar óvænt. Þannig hafa skapast veikleikar er varða framleiðsluöryggi og nægjanlegt raforkuframboð. Augljóst er að ekki er hagkvæmt að byggja upp raforkukerfi sem tryggir að engar líkur séu á raforkuskorti. Vega þarf og meta þessa þætti og skilgreina ásættanleg mörk orkuöryggis. Markmið þessa frumvarps er m.a. að tryggja yfirsýn yfir stöðu á raforkumarkaði út frá skilgreindum viðmiðum. Þá verði í reglugerð skilgreind ásættanleg öryggismörk.
    Við vinnu meiri hlutans kom berlega í ljós hve ógagnsær íslenskur raforkumarkaður er. Skortur á upplýsingum og misvísandi upplýsingar geta leitt til þess að teknar verði rangar ákvarðanir þegar og ef kemur að því að skammta þurfi raforku. Óskilvirkni raforkumarkaðarins eykur enn frekar þann vanda sem vinnslufyrirtæki, flutnings- og dreififyrirtæki, notendur og stjórnvöld standa frammi fyrir þegar raforkuöryggi er ógnað.
    Við meðferð málsins fyrir nefndinni kom fram að á sama tíma og það stefnir í skert framboð raforku sé mikil eftirspurn frá stórnotendum. Hugtakið stórnotandi er skilgreint í 19. tölul. 3. gr. raforkulaga sem notandi sem notar innan þriggja ára á einum stað a.m.k. 80 GWst á ári. Stórnotendur kaupa um 75–80% þeirrar raforku sem framleidd er hér á landi. Algengt er að kaupin byggist á langtímasamningum þar sem kveðið er á um skerðanlega orku. Sveigjanleiki er þegar til staðar í kerfinu ef taka þarf á aðstæðum sem koma upp til skamms tíma, á borð við rof í kerfinu vegna náttúruhamfara, sbr. aðventustorminn 2019 og nú jarðelda á Reykjanesskaga. Með frumvarpi þessu er horft til skömmtunar ef ljóst er að það stefnir í raforkuskort vegna ójafnvægis á raforkumarkaði, þar sem eftirspurn er umfram framboð. Í því felst að bæði flutningsfyrirtæki og dreifiveitum er gert að skammta rafmagn eftir tilteknum viðmiðum. Í umsögnum um málið kom fram að greina hefði mátt betur hvaða önnur úrræði væru möguleg áður en gripið væri til þess neyðarúrræðis sem skömmtun felur í sér. Meiri hlutinn telur mikilvægt að komi upp aðstæður sem feli í sér að skammta þurfi rafmagn til lengri tíma sé skýrt kveðið á um forgang almennings.
    Fyrir nefndinni komu fram skiptar skoðanir um hvort rekja megi stöðuna á raforkumarkaði eingöngu til skorts á framboði raforku eða þess að ekki hafi verið nýtt þau úrræði sem standa til boða til að tryggja skilvirkni markaðar. Meiri hlutinn undirstrikar að þótt inngrip eins og skömmtun geti verið nauðsynlegur öryggisventill í markaðsbresti þá séu þau ekki æskileg á samkeppnismarkaði með raforku. Eðlilegast er að stjórnvöld og aðilar orkumarkaðarins eigi samvinnu við að breyta núverandi fyrirkomulagi orkuviðskipta og færa það í eðlilegt horf til framtíðar. Meiri hlutinn tekur undir ábendingar Elmu orkuviðskipta ehf. um að setja verði ramma fyrir heildsölumarkað sem gefi vísbendingar um verð og þróun eftirspurnar. Efla verði virkni markaðarins áður en gripið er til íhlutunar á borð við skömmtun sem eigi alltaf að vera síðasta úrræðið.
    Jafnframt væri ekki aðeins mikilvægt að hafa yfirsýn yfir framboð raforku til næstu ára heldur einnig að kortleggja eftirspurn á markaði með því að leita upplýsinga hjá hagaðilum.
    Meiri hlutinn telur mikilvægt að fundin sé lausn sem hægt er að vinna að til framtíðar, ekki síst með hliðsjón af orkustefnu og orkuskiptum. Eftirspurn eftir orku eigi aðeins eftir að aukast og í ljósi almennrar umræðu um umframsölu þegar nýir stórir notendur koma inn á markaðinn sé mikilvægt að í samningum sé gert skylt að skilgreina hvaðan hin selda orka kemur svo að samningar hafi innstæðu.
    Aukinni eftirspurn eftir raforku vegna atvinnuuppbyggingar og ekki síður vegna orkuskipta verður ekki aðeins mætt með því að auka orkuframleiðslu. Nauðsynlegt er að styrkja flutningskerfi raforku verulega og auka þar með sveigjanleika kerfisins og öryggi. Þá verður að leggja aukna áherslu á orkunýtni. Virkur viðskiptavettvangur með raforku og öflugt flutningskerfi styðja við hámarksnýtingu orkunnar. Með því skapast svigrúm til endursölu orku sem annars er ekki nýtt eða ekki er hægt að nýta. Hvati til hagræðingar og orkusparnaðar verður til hjá notendum.

Raforkuspárnefnd.
    Með 1. gr. frumvarpsins eru sett fram viðmið sem byggja skal á um mat á á raforkuöryggi á heildsölumarkaði raforku til lengri og skemmri tíma. Samkvæmt reglugerð um Orkustofnun, nr. 400/2009, ber stofnuninni að tryggja söfnun upplýsinga og gera orkuspá. Í umsögn RARIK um málið er m.a. lagt til að í raforkulögum verði lögfest ákvæði um raforkuspárnefnd. Meiri hlutinn telur að vel athuguðu máli ekki tímabært að leggja til að slíkt ákvæði verði lögfest.
    Meiri hlutinn beinir því til ráðuneytisins að formgera reglur um raforkuspá og mat á raforkuöryggi í reglugerð. Hlutverk flutningsfyrirtækisins er að sjá til þess að fyrir liggi spá um raforkuþörf og áætlun um uppbyggingu flutningskerfisins skv. 5. tölul. 3. mgr. 9. gr. raforkulaga, sbr. einnig 9. gr. a laganna sem kveður á um skyldu þess til að vinna kerfisáætlun a.m.k. annað hvert ár og leggja fyrir Raforkueftirlitið. Liggur því beinast við að ráðherra feli flutningsfyrirtækinu að vinna að sjálfstæðri raforkuspá og mati á raforkuöryggi til skemmri og lengri tíma, að höfðu samráði við hagaðila, sbr. heimild ráðherra til setningar reglugerðar skv. 2. mgr. 1. gr. frumvarpsins.
    Í raforkuspá flutningsfyrirtækisins, sem skal vera opinber, á að leggja mat á raforkuöryggi á heildsölumarkaði út frá áætlaðri þróun á framleiðslugetu og eftirspurn. Annars vegar á að meta raforkuþörf og hins vegar framleiðslugetu.

Nýting og sala glatvarma.
    Meiri hlutinn vekur athygli á því að stórnotendum raforku er heimilt skv. 18. gr. b raforkulaga, að uppfylltum skilyrðum, að selja glatvarma inn á raforkukerfið, þ.e. þá orku sem leysist úr læðingi frá eigin framleiðsluferlum og annars færi til spillis. Í fyrrgreindu ákvæði segir að ráðherra skuli í reglugerð kveða nánar á um skilyrði til nýtingar. Glatvarmann má m.a. endurnýta til að framleiða rafmagn en 357 GWst féllu til við iðnaðarframleiðslu árið 2022 samkvæmt skýrslunni Engin orkusóun sem var unnin á vegum Landsvirkjunar, ráðuneytisins og Orkustofnunar og birt í nóvember 2023. Meiri hlutinn telur mikilvægt við þær aðstæður sem nú eru að nýta þá raforku sem hægt er. Meiri hlutinn bendir á að þegar ákvæðið var lögfest kom m.a. fram við meðferð málsins að hægt væri að nýta glatvarma frá Fjarðaáli til húshitunar á Reyðarfirði í stað beinnar rafhitunar sem er dýrasti kosturinn þegar kemur að húshitun. Nýting glatvarma geti því einnig talist mikilvæg út frá byggðasjónarmiði.

Breytingartillögur.
Aukin heimild til samninga við markaðsaðila.
    Við meðferð málsins fyrir nefndinni kom fram að mögulega hefði mátt komast hjá þeim aðstæðum sem sköpuðust veturinn 2023–2024 ef til staðar væri virkur markaður með raforku. Meiri hlutinn tekur undir það sjónarmið en telur að á meðan beðið er skýrari löggjafar þar um sé ljóst að auka þurfi sveigjanleika til viðbragða á markaði svo að hægt sé að bregðast við orkuskorti án þess að stjórnvöld telji sig tilneydd að grípa inn í. Það mætti m.a. gera með því að gera stórnotendum kleift að selja orku aftur inn á kerfið til kerfisstjóra en slík heimild er ekki til staðar í dag í raforkulögum.
    Meiri hlutinn telur mikilvægt að til staðar séu úrræði sem leyfi markaðnum að bregðast við áður en ganga þurfi svo langt að stjórnvöld telji sig tilneydd til inngripa á raforkumarkaði. Í 9. gr. raforkulaga er kveðið á um skyldur flutningsfyrirtækisins. Þar segir í 4. mgr. að það beri ábyrgð á öruggri stýringu raforkukerfisins og skuli tryggja öryggi og gæði við raforkuafhendingu og er talið í fimm töluliðum hvað felst m.a. í slíkri kerfisstjórnun. Í 1. tölul. er kveðið á um skyldu flutningsfyrirtækisins til að stilla saman raforkuvinnslu og raforkuþörf svo að hægt sé að mæta frávikum milli umsaminna kaupa og raforkunotkunar, sem og að gera samninga við vinnslufyrirtæki í þessu sambandi. Flutningsfyrirtækinu er aðeins heimilt að gera samninga við framleiðendur raforku samkvæmt ákvæðinu. Nánar er kveðið á um kerfisstjórnun í raforkukerfinu í reglugerð nr. 513/2003.
    Með vísan til framangreinds leggur meiri hlutinn til að 1. tölul. 4. mgr. 9. gr. raforkulaga verði breytt á þann veg að vísað verði til markaðsaðila í stað vinnslufyrirtækja. Meiri hlutinn telur að með lögfestingu þessara breytinga verði greitt fyrir mögulegri þátttöku stórnotenda í jöfnunarorkumarkaði flutningsfyrirtækisins, þ.e. Landsnets, en með jöfnunarorku er átt við þá raforku sem kerfisstjóri tryggir að sé til reiðu til að halda jafnvægi milli raforkunotkunar og raforkutaps annars vegar og raforkuvinnslu hins vegar.
    Hugtakið „markaðsaðili“ er ekki skilgreint í raforkulögum. Til að breytingin nái því markmiði sem stefnt er að telur meiri hlutinn mikilvægt að skýrt sé að með markaðsaðila sé átt við vinnslufyrirtæki, flutningsfyrirtæki, dreifiveitur, sölufyrirtæki og stórnotendur í skilningi raforkulaga. Nefndin var upplýst um að ráðuneytið hafi í vinnslu frumvarp sem ætlað er að mæla fyrir um hátternisreglur í raforkuviðskiptum.

Flutningsfyrirtækið, dreifiveitur og viðmið um skömmtun raforku (2. og 3. gr.).
    Kveðið er á um skyldur flutningsfyrirtækisins í 9. gr. raforkulaga og skyldur dreifiveitu í 16. gr. laganna. Með 2. og 3. gr. frumvarpsins er lögð til breyting á 9. mgr. 9. gr. og 7. mgr. 16. gr. raforkulaga, þar sem kveðið verði nánar á um viðmið þegar grípa þarf til skömmtunar raforku, annars vegar frá flutningsfyrirtækinu til dreifiveitna og notenda og hins vegar frá dreifiveitum til notenda. Þar skuli miða við notendur sem kaupa raforku til heimilisnota, mikilvæga samfélagsinnviði og fyrirtæki með færri en 50 starfsmenn og ársveltu eða efnahagsreikning sem er ekki yfir 1,5 milljörðum kr. og hafa ekki samið sérstaklega um skerðanlega notkun. Í gildandi ákvæðum er kveðið á um að grípa skuli til skömmtunar þegar framboð raforku fullnægir ekki eftirspurn og að við skömmtun skuli gæta jafnræðis og byggja á málefnalegum sjónarmiðum sem skuli útfærð í reglugerð.
    Við meðferð málsins kom fram að flutningsfyrirtækið Landsnet hefur sett ákveðin viðmið fyrir skömmtun raforku ef upp koma ófyrirséð atvik. Flutningsfyrirtækið getur eingöngu skammtað magn til viðskiptavina sinna sem eru stórnotendur og dreifiveitur en ekki til almennra notenda. Framangreind skilyrði geti því ekki nýst sem viðmið við skömmtun í starfsemi Landsnets. Þurfi að koma til skömmtunar á raforku sé hún á forræði viðkomandi dreifiveitna. Í umsögn sinni bendir Landsnet á að þegar séu í gildi reglugerðir og skilmálar sem taka á skerðingum og skömmtunum, sbr. skilmála C.5 um skerðingar og skömmtun rafmagns. Skilmálinn er settur á grundvelli raforkulaga, nr. 65/2003, með síðari breytingum, og reglugerð nr. 513/2003, um kerfisstjórnun í raforkukerfinu. Efni netmálans lýtur að skerðingum og skömmtun, m.a. vegna umframeftirspurnar og svæðisbundinna takmarkana flutningsgetu. Netmálinn veitir Landsneti heimildir til að mæta umframeftirspurn með nýtingu reglunarafls, skerðingum á ótryggðu rafmagni og skerðanlegum flutningi og nýtingu skerðingarheimilda hjá stórnotendum, framleiðslu með varaafli, hámörkun framleiðslu hjá vinnslufyrirtækjum og loks skömmtunum.
    Meiri hlutinn tekur undir sjónarmið Landsnets og leggur til að ákvæðinu verði breytt á þann veg að fellt verði út viðmið er snýr að skömmtun til almennra notenda, sbr. 2. efnismálsl. 2. gr. frumvarpsins, enda sé það verkefni dreifiveitna að koma raforku til þeirra. Forgangs til skömmtunar raforku njóti því dreifiveitur og aðilar sem eru skilgreindir sem mikilvægir samfélagslegir innviðir.
    Í 2. og 3. gr. frumvarpsins er kveðið á um um nánari útfærslu í reglugerð, þar sem gætt skuli jafnræðis við skömmtun og byggt á málefnalegum sjónarmiðum. Orðalagið er nær óbreytt frá því sem er í þeim ákvæðum sem lagt er til að breyta. Nánar er kveðið á um heimild flutningsfyrirtækisins til skömmtunar raforku í 4. gr. reglugerðar nr. 513/2003, um kerfisstjórnun í raforkukerfinu, og skal það setja sér reglur um skömmtun. Heimilt er semja við notendur og dreifiveitur um að skerða álag til einstakra notenda eða dreifiveitna eða takmarka raforkuvinnslu vegna umfangsmikilla truflana sem hafa áhrif á tíðni eða spennu. Gæta skal jafnræðis og leitast við að tryggja að skömmtun valdi sem minnstri röskun á samfélagslegum hagsmunum. Skal m.a. leitast við að tryggja raforku til þeirra fyrirtækja og stofnana sem veita almenningi bráðaþjónustu og tryggja öryggi borgara og allsherjarreglu.
    Kveðið er á um starfsemi og skyldur dreifiveitu í 16. gr. raforkulaga. Með 3. gr. frumvarpsins er lögð til sambærileg breyting og í 2. gr. frumvarpsins um viðmið flutningsfyrirtækisins til skömmtunar raforku til dreifiveitna og notenda. Í 23. gr. reglugerðar nr. 1040/2005, um framkvæmd raforkulaga, með síðari breytingum, er ákvæði um skömmtun dreifiveitna þar sem líta skal til sambærilegra sjónarmiða og þegar kemur að framangreindu reglugerðarákvæði um skömmtun flutningsfyrirtækisins. Þá bendir meiri hlutinn á að enn eru í gildi leiðbeiningar Orkustofnunar (nú Raforkueftirlitsins) um skömmtun raforku dreifiveitna, frá 1. október 2012. Þar segir að reglunum sé ætlað að tryggja að þegar grípa þarf til skömmtunar á raforku sé hún framkvæmd á þann hátt að sú raforka sem er til taks sé sem best nýtt að teknu tilliti til almannahagsmuna. Jafnframt segir að erfitt sé að setja nákvæmlega sömu kröfu á allar dreifiveitur þar sem þær séu afar ólíkar hvað varðar stærð dreifiveitusvæðis, landfræðilegar aðstæður og magn dreifðrar raforku.
    Við meðferð málsins fyrir nefndinni kom fram að þegar kemur að heimilum og smærri fyrirtækjum væri skömmtunin á hendi dreifiveitna. Sú dreifing byggist á skömmtun flutningsfyrirtækisins, þ.e. hvort skömmtunar sé þörf hjá einni eða fleiri dreifiveitum. Þau viðmið sem lögð eru til með 3. gr. frumvarpsins séu ekki framkvæmanleg miðað við núverandi aðstæður en hins vegar sé mögulegt að skipta notendum í flokka innan dreifikerfisins, sbr. umsagnir RARIK og Veitna. Endurskoðun viðmiða væri því nauðsynleg. RARIK bendir í umsögn sinni á að mikilvægt sé að greinarmunur sé gerður á raforkuskorti til skemmri og lengri tíma og að hægt sé að fylgja lögfestri forgangsröð við skömmtun. Bæði RARIK og Veitur lögðu áherslu á að þrátt fyrir rótgróna hefð við skömmtun vegna rekstrartruflana í raforkukerfinu væri æskilegt að í lögum væri kveðið á um nákvæmara orðalag um skömmtun.
    Meiri hlutinn leggur til að forgangs við skömmtun njóti mikilvægir samfélagsinnviðir, heimili og smærri fyrirtæki sem teljast ekki til stórnotenda. Við setningu reglugerða á grundvelli 2. og 3. gr. frumvarpsins verði skýrar kveðið á um tiltekin viðmið um skerðingar og skömmtun raforku sem er nú þegar að finna í reglugerðum og reglum sem settar hafa verið á grundvelli laganna. Haft verði samráð við flutningsfyrirtæki og dreifiveitur og tekið mið af staðháttum dreifiveitna og magni dreifðrar raforku.
    Meiri hlutinn telur rétt að í reglugerð verði skilgreindir þeir notendur flutningsfyrirtækisins og dreifiveitna sem teljast mikilvægir samfélagsinnviðir, m.a. annars út frá sjónarmiðum um almannaöryggi og þjóðaröryggi. Eðlilegt sé að við þá vinnu sé gætt að samræmi við önnur lög og reglur sem sett eru um mikilvæga samfélagsinnviði, með vísan til almannaheilla og mikilvægrar samfélagslegrar starfsemi.
    Að framangreindu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi:

BREYTINGU:


     1.      Á eftir 1. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
                 Á eftir 8. tölul. 3. gr. laganna kemur nýr töluliður, svohljóðandi: Markaðsaðili: Til markaðsaðila teljast vinnslufyrirtæki, flutningsfyrirtæki, dreifiveitur, sölufyrirtæki og stórnotendur í skilningi laga þessara og hver sá einstaklingur eða lögaðili sem stundar viðskipti með raforku í heildsölu.
     2.      Við 2. gr.
                  a.      Við bætist nýr liður, svohljóðandi: Í stað orðsins „vinnslufyrirtæki“ í 1. tölul. 4. mgr. 9. gr. laganna kemur: markaðsaðila.
                  b.      2. málsl. efnismálsgreinar falli brott.
     3.      Við 3. gr.
                  a.      Í stað tilvísunarinnar „6. mgr.“ í inngangsmálsgrein komi: 7. mgr.
                  b.      2. málsl. efnismálsgreinar orðist svo: Við skömmtun skulu njóta forgangs heimilisnotendur, mikilvægir samfélagsinnviðir og aðilar sem ekki hafa samið um skerðanlega notkun.
                  c.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Raforkueftirlitið skal halda opinbera skrá yfir þá notendur raforku sem skilgreindir eru sem mikilvægir samfélagsinnviðir samkvæmt ákvæði þessu með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda, að fenginni staðfestingu ráðherra. Skráin skal uppfærð eftir því sem tilefni er til og á a.m.k. tveggja ára fresti.

    Eva Dögg Davíðsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifar undir álitið með heimild í 2. mgr. 29. gr. þingskapa.

Alþingi, 10. maí 2024.

Óli Björn Kárason,
frsm.
Ásmundur Friðriksson. Birgir Þórarinsson.
Eva Dögg Davíðsdóttir. Helgi Héðinsson. Ingibjörg Isaksen.