Ferill 722. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1733  —  722. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um útlendinga, nr. 80/2016 (alþjóðleg vernd).

(Eftir 2. umræðu, 17. maí.)


1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „sjö“ í 1. málsl. 3. mgr. kemur: þrjá.
     b.      Í stað orðanna „Formaður nefndarinnar og varaformaður skulu skipaðir í fullt starf“ í 2. málsl. 3. mgr. kemur: Nefndin er skipuð formanni, varaformanni og nefndarmanni sem skulu skipaðir í fullt starf.
     c.      4. mgr. orðast svo:
             Þess skal gætt að innan nefndarinnar sé nauðsynleg sérþekking á þeim sviðum sem fjallað er um í nefndinni, þar á meðal mannréttindum og stjórnsýslurétti.
     d.      Í stað orðanna „og varaformanns“ í 1. málsl. 5. mgr. kemur: varaformanns og nefndarmanns.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 8. gr. laganna:
     a.      1. málsl. 1. mgr. orðast svo: Að jafnaði skulu tveir nefndarmenn úrskurða í hverju máli sem nefndinni berst.
     b.      Í stað 2., 3. og 4. málsl. 1. mgr. koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Þegar nefndarmenn eru ekki sammála um niðurstöðu máls skal kalla til þriðja nefndarmann og ræður þá meiri hluti. Formanni er heimilt að ákveða að nefndin skuli vera fullskipuð við afgreiðslu máls telji hann mál viðamikið eða fordæmisgefandi.
     c.      2. mgr. orðast svo:
             Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er nefndarmönnum heimilt að úrskurða einir þegar:
              a.      um er að ræða mál er varða vegabréfsáritanir,
              b.      um er að ræða beiðni um frestun réttaráhrifa,
              c.      kærandi er ríkisborgari ríkis sem er á lista Útlendingastofnunar yfir örugg upprunaríki,
              d.      Útlendingastofnun hefur afgreitt málið í forgangsmeðferð skv. 29. gr.,
              e.      um er að ræða endurtekna umsókn skv. 35. gr. a.
     d.      3. mgr. orðast svo:
                 Fullskipaðri nefnd er einnig heimilt að fela einum nefndarmanni að úrskurða í öðrum tegundum mála þar sem nefndin telur að framkvæmd og fordæmi séu svo skýr að ekki sé nauðsynlegt að afgreiða slík mál skv. 1. mgr.
     e.      5. mgr. fellur brott.
     f.      Í stað orðanna „Í málum skv. IV. kafla og 74. gr. getur nefndin“ í 2. málsl. 7. mgr. kemur: Nefndin getur.
     g.      4., 5. og 6. málsl. 7. mgr. falla brott.

3. gr.

    2. málsl. 4. mgr. 23. gr. laganna orðast svo: Þó skal umsóknum skv. 37. og 39. gr. svarað innan 18 mánaða.

4. gr.

    Orðin „2. mgr. 36. gr. og“ í 2. málsl. 2. mgr. 35. gr. a laganna falla brott.

5. gr.

    2. mgr. 36. gr. laganna fellur brott.

6. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 45. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðunum „börn hans“ í 1. málsl. 2. mgr. kemur: þ.m.t. kjörbörn.
     b.      Á eftir 2. málsl. 2. mgr. koma fjórir nýir málsliðir, svohljóðandi: Byggist umsókn fjölskyldumeðlims samkvæmt þessari málsgrein á tengslum við útlending sem nýtur alþjóðlegrar verndar skv. 2. mgr. 37. gr. þarf sá fjölskyldumeðlimur sem umsókn er byggð á að hafa fengið dvalarleyfi sitt endurnýjað fyrir framlagningu umsóknar. Heimilt er að veita undanþágu frá kröfu um endurnýjun ef ríkar sanngirnisástæður mæla með því vegna aðkallandi umönnunarsjónarmiða. Einnig er heimilt að veita undanþágu frá kröfu um endurnýjun ef útlendingur hefur haft dvalarleyfi á grundvelli 2. mgr. 37. gr. í a.m.k. eitt ár og fullnægir eftirfarandi skilyrðum: hefur verið virkur þátttakandi á vinnumarkaði í átta mánuði og uppfyllir skilyrði um trygga framfærslu skv. a-lið 1. mgr. 55. gr., uppfyllir skilyrði um íslenskukunnáttu og hefur til umráða íbúðarhúsnæði fyrir aðstandendur sem sótt er um fjölskyldusameiningarleyfi fyrir. Ráðherra er skylt að útfæra í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd þessarar málsgreinar, þ.m.t. hvaða skilyrði eru sett um íslenskukunnáttu og íbúðarhúsnæði.
     c.      Á eftir skammstöfuninni „þ.m.t.“ í 7. mgr. kemur: um hvað fellur undir ríkar sanngirnisástæður vegna aðkallandi umönnunarsjónarmiða og um.


7. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 69. gr. laganna:
     a.      Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr.:
                  1.      Í stað tilvísunarinnar „73.“ í 1. málsl. kemur: 2. mgr. 73.
                  2.      Tilvísunin „74.“ í 1. málsl. fellur brott.
                  3.      4. málsl. fellur brott.
     b.      Á eftir 1. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                 Nánasti aðstandandi útlendings sem dvelst hér á landi á grundvelli dvalarleyfis skv. 3. mgr. 73. gr. getur með umsókn fengið dvalarleyfi vegna fjölskyldusameiningar að fullnægðum skilyrðum 55. gr. og VIII. kafla hafi sá sem umsóknin er byggð á fengið dvalarleyfi sitt endurnýjað fyrir framlagningu umsóknar. Heimilt er að veita undanþágu frá kröfu um endurnýjun ef ríkar sanngirnisástæður mæla með því vegna aðkallandi umönnunarsjónarmiða. Sama gildir um nánustu aðstandendur útlendings sem dvelst hér á landi á grundvelli dvalarleyfis skv. 74. gr. hafi dvalarleyfið verið endurnýjað tvívegis.

8. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 70. gr. laganna:
     a.      Á undan orðunum „sérstakra tengsla við landið skv. 78. gr.“ í 3. mgr. kemur: eða.
     b.      Orðin „eða fjölskyldusameiningar skv. 72. gr.“ í 3. mgr. falla brott.
     c.      Í stað orðanna „í boði stjórnvalda skv. 43. gr.“ í a-lið 4. mgr. kemur: skv. 2. mgr. 37., 43. og 74. gr.

9. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 73. gr. laganna:
     a.      Orðin „skv. 37., 39., 43. eða 45. gr.“ í 1. mgr. falla brott.
     b.      Í stað orðanna „samkvæmt ákvæði þessu skal veitt til fjögurra“ í 1. málsl. 2. mgr. kemur: útlendings sem nýtur verndar skv. 1. mgr. 37., 39., 43. eða 45. gr. skal veitt til þriggja.
     c.      Á eftir 2. mgr. koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                      Dvalarleyfi útlendings sem nýtur verndar skv. 2. mgr. 37. gr. skal veitt til tveggja ára og er aðeins heimilt að endurnýja ef skilyrðum ákvæðisins er enn fullnægt. Heimilt er að synja útlendingi um endurnýjun leyfis sé það nauðsynlegt vegna öryggis ríkisins eða almannahagsmuna. Endurnýja má leyfið þótt ekki sé fullnægt öllum skilyrðum 55. gr.
                      Dvalarleyfi sem veitt er á grundvelli 2. eða 3. mgr. 45. gr. getur aldrei gilt lengur en leyfi þess fjölskyldumeðlims sem viðkomandi leiðir rétt sinn af.

10. gr.

    5. mgr. 74. gr. laganna orðast svo:
    Dvalarleyfi samkvæmt ákvæði þessu skal ekki veitt til lengri tíma en eins árs og er heimilt að endurnýja það að þeim tíma liðnum, enda hafi forsendur fyrir veitingu leyfisins í upphafi ekki breyst.

11. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 77. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „ákvörðun hefur verið tekin um umsóknina“ í 1. málsl. kemur: Útlendingastofnun hefur tekið ákvörðun um umsóknina.
     b.      2. málsl. fellur brott.

12. gr.

    Orðin „sem sótt hefur um alþjóðlega vernd“ í 2. málsl. 7. mgr. 104. gr. laganna falla brott.

13. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 1. málsl. 3. mgr. 6. gr. laganna er ráðherra heimilt í allt að eitt ár frá 1. janúar 2025 að setja í kærunefnd útlendingamála einn eða tvo nefndarmenn í hlutastarf eða fullt starf. Þeir skulu uppfylla skilyrði um embættisgengi héraðsdómara.

14. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. koma 1. og 2. gr. ekki til framkvæmda fyrr en sex mánuðir eru liðnir frá gildistöku laga þessara. Þá gilda 5. gr., sbr. 3. og 4. gr., og 6. og 7. gr. ekki um meðferð umsókna sem bárust fyrir gildistöku laga þessara.