Sigurður Ó. Ólafsson

Sigurður Ó. Ólafsson

Þingseta

Alþingismaður Árnesinga 1951–1959, alþingismaður Suðurlands 1959–1967 (Sjálfstæðisflokkur).

Varaþingmaður Árnesinga nóvember–desember 1949, janúar–mars og október–nóvember 1951.

Forseti efri deildar 1959–1967.

Minningarorð
Raddsýnishorn

Æviágrip

Fæddur í Neistakoti á Eyrarbakka 7. október 1896, dáinn 15. mars 1992. Foreldrar: Ólafur Sigurðsson (fæddur 7. nóvember 1869, dáinn 6. apríl 1950) bóndi og söðlasmiður þar, mágur Lárusar Helgasonar alþingismanns, og kona hans Þorbjörg Sigurðardóttir (fædd 7. ágúst 1873, dáin 18. febrúar 1940) húsmóðir. Maki (10. október 1925): Kristín Guðmundsdóttir (fædd 8. febrúar 1904, dáin 9. júní 1992) húsmóðir. Foreldrar: Guðmundur Guðmundsson, bróðir Sigurðar Guðmundssonar afa Þorsteins Pálssonar alþingismanns og ráðherra og hálfbróðir Sveins Guðmundssonar alþingismanns, og kona hans Ragnheiður Lárusdóttir, dóttir Lárusar Blöndals alþingismanns. Dætur: Þorbjörg (1927), Ragnheiður (1929), Sigríður (1931), Sigríður Ragna (1943).

Unglingaskólanám á Eyrarbakka 1911–1913. Verslunarnámskeið 1913.

Stundaði ýmis störf til lands og sjávar, var m.a. stundakennari við barnaskólann á Eyrarbakka 1915–1916. Bifreiðarstjóri og verslunarmaður á Eyrarbakka 1919–1927. Kaupmaður á Selfossi 1927–1964. Stundaði verslunar- og skrifstofustörf í Reykjavík 1964–1974.

Var einn af stofnendum Sjálfstæðisfélagsins Óðins í Árnessýslu 1938 og var formaður þess til 1946. Í hreppsnefnd Sandvíkurhrepps 1938–1947 og í hreppsnefnd Selfosshrepps 1947–1962, oddviti 1947–1958. Sýslunefndarmaður 1938–1958. Formaður skólanefndar Laugarvatnsskóla 1951–1967. Átti lengi sæti í sóknarnefnd Laugardælakirkju, var formaður hennar og beitti sér í því starfi fyrir byggingu Selfosskirkju (1952–1956). Átti sæti í framkvæmdastjórn Verslunarráðs Íslands. Yfirskoðunarmaður ríkisreikninga 1964–1967. Skipaður 1966 í endurskoðunarnefnd laga um þingsköp Alþingis.

Alþingismaður Árnesinga 1951–1959, alþingismaður Suðurlands 1959–1967 (Sjálfstæðisflokkur).

Varaþingmaður Árnesinga nóvember–desember 1949, janúar–mars og október–nóvember 1951.

Forseti efri deildar 1959–1967.

Æviágripi síðast breytt 17. mars 2020.

Áskriftir