154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[19:00]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Stórgóð ræða. Ég áttaði mig ekki alveg á hvort þetta væri stjórnarþingmaður eða ekki, það er svo mikið sem þarf að gera og ekkert að gerast, tiltölulega lítið alla vega. En ég get verið sammála hv. þingmanni um bara dágóðan hluta af þessum lista, alveg bara nokkurn veginn allt, með smá athugasemdum að sjálfsögðu af því að þannig gengur það og gerist. Stundum er það nefnilega þannig að gæði kosta — það er ekki alltaf hægt að njörva allt niður í algjöra lágmarkið sem þarf til þess að láta þjónustuna standa á beinunum eiginlega. Ég held að það sé pínulítið vandinn sem búinn er að gerast t.d. í löggæslunni. Það er einmitt búið að skrapa inn að beini sem gerir það að verkum að lausnirnar sem verið er að koma upp með til að leysa hinar ýmsu áskoranir hjá löggæslunni eru í rauninni aðferðir og lausnir sem við ættum ekkert að sætta okkur við, eins og með rafbyssur og meiri vopnaburð og stærri sérsveit o.s.frv. Ég veit alveg hverjar áskoranirnar eru varðandi skipulagða glæpastarfsemi en hún er ekkert að vesenast neitt sérstaklega mikið í lögreglunni, ekki á þann hátt, meira svona sín á milli og þess háttar. Þarna er einmitt skortur á gæðum sem býr til mjög vanhugsaðar lausnir sem eru vissulega ódýrari en valda jafnvel meiri skaða þegar allt kemur til alls. Aukinn vopnaburður lögreglu er bara vel rannsakaður og hann eykur almennt ofbeldi í samfélaginu. Fólk sem sér mikið af vopnum — það hefur áhrif. Það er svo margt annað hérna en byrjum alla vega á þessu.