154. löggjafarþing — 94. fundur,  11. apr. 2024.

skyldutryggingar lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

880. mál
[11:20]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ef við lítum til nágrannaríkja okkar höfum við séð að lífeyrissjóðirnir og sambærilegir sjóðir þar eru mjög stórtækir sem þátttakendur á húsnæðismarkaði með beinum hætti; ekki bara með óbeinum hætti, eins og hv. þingmaður vísaði til, með lánveitingum heldur með beinum hætti. Lífeyrissjóðirnir sjálfir hafa haft miklar óskir um að geta komist með skýrari hætti inn á þennan markað. Það eru nokkrar hindranir fólgnar í því, m.a. sú að það þurfi marga lífeyrissjóði af því að hámarkið var 20% í þessum óskráðu eignum. Og síðan hitt, þ.e. þessi samkeppni við áhættusamari fjárfestingar. Ef þú ert með mjög takmarkaða heimild til þess að sinna því hefur það orðið niðurstaðan að sjóðstjóri velur kannski það sem er hugsanlega meiri ávinningur af en er á móti mun áhættusamara. Á fundi sem við áttum með hagsmunaaðilum varðandi þessi mál, fyrir tveimur til þremur árum, í innviðaráðuneytinu kom það fram að hefðu lífeyrissjóðirnir verið stórtækir þátttakendur á þessum húsnæðismarkaði með þessum beina hætti hefði ávöxtunin að jafnaði verið að lágmarki 4,5% yfir það tímabil, sem er vel yfir því markmiði sem lífeyrissjóðirnir setja sér um 3% og er í lögum. Ég tel því að þetta sé gríðarlega góð ávöxtun og henti einmitt vel fyrir lífeyrissjóðina þar sem um langtímafjárfestingu er að ræða. Í þessum tilvikum er annars vegar hugsanlega verið að heimila tveimur að koma að stærri verkefnum, ekki fimm eins og þörfin hefði verið ef allir hefðu nýtt hámark sitt, og aukinheldur að setja þessi 5% mörk sem gerir það að verkum að ef þú ferð nákvæmlega inn í þetta þá ert þú ekki í samkeppni við aðrar áhættusamari fjárfestingar. Þannig að svarið er: Já, þetta er mjög gott fyrir lífeyrissjóðina og þeim mjög að skapi.