154. löggjafarþing — 94. fundur,  11. apr. 2024.

skyldutryggingar lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

880. mál
[11:31]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hef ekki sömu áhyggjur og hv. þingmaður. Ég tel að þessi heimild sé gríðarlega góð viðbót við þær heimildir sem lífeyrissjóðirnir hafa í dag og gefi þeim einmitt möguleika á að koma inn á þennan markað. Hefðu lífeyrissjóðirnir verið inni á þessum markaði með beinum hætti er það staðreynd að á síðastliðnum 20 árum — og þau ár eru ekki nein venjuleg ár, heilt bankahrun og efnahagskrísa og alls konar hlutir — hefði ávöxtun þeirra verið í það minnsta 4,5% að jafnaði, jafnvel aðeins hærri, sem er vel yfir þeim mörkum sem þeir hafa sett sér til langs tíma. Það er líka reynsla alls staðar annars staðar í nálægum ríkjum að þetta geri það að verkum að uppbyggingin verði jafnari og stöðugri. Ég trúi því að ef af þessu frumvarpi verður og það verður að lögum verði nákvæmlega sami árangur af því hér og annars staðar.