154. löggjafarþing — 99. fundur,  19. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[10:48]
Horfa

innviðaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Í fyrsta lagi vil ég segja að ég tek undir með hv. þingmanni um mikilvægi þess að skýrslan um úttekt á Hvassahrauni liggi fyrir, ekki bara í ráðuneytinu heldur ekki síður á vettvangi Alþingis. Ég held að fullt tilefni verði til þess að við tökum hana til umræðu, hvort sem er með hv. umhverfis- og samgöngunefnd eða hreinlega hér í þingsal. Ég held að við séum alltaf að gera okkur betur og betur grein fyrir því, og ekki síst í ljósi Grindavíkurelda, að við verðum að lyfta sjónarmiðum greininga og náttúruvár meira en við höfum gert þegar við erum að gera skipulagsáætlanir.

Við höfum verið með þetta til skoðunar í ráðuneytinu varðandi skipulagslöggjöfina og varðandi forsendur skipulags og þá erum við kannski fyrst og fremst að tala um aðalskipulag en ekki síður svæðisskipulagsáætlanir. Og auðvitað er þetta líka til umræðu hjá hv. nefnd að því er varðar landsskipulagsstefnuna, að þekking og upplýsingar varðandi mögulega náttúruvá er eitthvað sem við verðum að leggja til grundvallar. Ég nefni til að mynda hækkun sjávarborðs og það sem við vitum núna um þau mál og þá uppbyggingu byggða meðfram strandlínunni sem munu skipta meira máli en við höfum í raun og veru tekið með markvissum hætti inn í áætlanir okkar.

Hv. þingmaður spyr sérstaklega um stöðu vinnunnar varðandi Sundabraut. Þar er verið að vinna að umhverfismati og forrannsóknum og er enn unnið samkvæmt plani. Gert er ráð fyrir að verkefnið fari af stað 2026 og að opnað verði fyrir umferð 2031. Sundabrautin er hluti af þessari heildarsýn fyrir uppbyggingu samgöngunets í kringum og á höfuðborgarsvæðinu en verður ekki rofið úr tengslum við uppbyggingu almenningssamgangna á svæðinu.