154. löggjafarþing — 99. fundur,  19. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[10:51]
Horfa

innviðaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vera mér sammála um mikilvægi þess að hafa kynjaða nálgun í þessum efnum. Það er rétt sem hv. þingmaður tekur fram að Sundabrautarverkefnið er talið mjög arðsamt. Það er raunar þannig að félagshagfræðileg greining hefur gert ráð fyrir umtalsverðum þjóðhagslegum ábata, sú greining og þeir útreikningar hafa farið fram.

En af því að hv. þingmaður veltir sérstaklega fyrir sér orkuskiptum í flugi þá höfum við þegar sýnt vilja til að styðja við verkefni sem eru tengd orkuskiptum í flugi. Við vitum líka að loftbrúin hefur reynst vel í jafnréttismálum og skipt þar miklu máli. Við höfum gerst aðilar að alþjóðlegri viljayfirlýsingu um orkuskipti í milliþungum og þungum ökutækjum. Viljayfirlýsingin er sannarlega ekki skuldbindandi en felur í sér að sett verði metnaðarfull markmið í málaflokknum ásamt þátttöku í samstarfi og upplýsingamiðlun sem tengjast þessum orkuskiptum. Að hluta til erum við að setja málaflokkinn, sama hvort það er á lofti, láði eða legi, yfir á spor orkuskipta og umhverfis- og loftslagsmála.