154. löggjafarþing — 99. fundur,  19. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[10:57]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Gera betur á framboðshliðinni — það eru lykilorð í þessu svari. Ég vil halda því fram að ríkisstjórnin sé einfaldlega ekki að gera nóg, það verði að gera betur. Helsti drifkraftur verðbólgunnar er húsnæðisliðurinn og hefur verið undanfarin misseri. Það er skortur á húsnæði, okkur fjölgar hratt, og skorturinn er viðvarandi. Við verðum að gera betur. Það má að mínu mati lesa það út úr þessari fjármálaáætlun að ekki sé verið að gera nóg. Þess vegna kom ég með þessa spurningu.

Málið er það að ríkið verður einfaldlega að stíga fastar inn. Það er markaðsbrestur á þessu sviði. Stýrivextir eru 9,25%, markaðsaðilar geta ekki fjármagnað húsnæði í þessu vaxtaumhverfi og þessari verðbólgu. Af hverju er þessi háa verðbólga? Jú, út af skorti á húsnæði. Ríkið þarf að stíga þarna fram. Ég get bent á það að þegar Breiðholtið var gert steig fyrirrennari VG, og verkalýðshreyfingin að auki, sterkt inn varðandi uppbyggingu húsnæðis. Spurningin er aftur: Þarf ríkið ekki að koma enn sterkar inn við uppbyggingu húsnæðis?