154. löggjafarþing — 100. fundur,  22. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[20:43]
Horfa

Orri Páll Jóhannsson (Vg):

Virðulegi forseti. Við höfum hér undanfarna þingdaga rætt fjármálaáætlun fyrir árin 2025–2029. Ríkisstjórnin hefur forgangsraðað í þágu velferðar, uppbyggingar og efnahagslegs stöðugleika með það að leiðarljósi að draga úr spennu í efnahagslífinu, ná niður verðbólgu og skapa forsendur fyrir vaxtalækkun.

Í umræðunni hefur ýmislegt borið á góma sem vert er að halda til haga. Til að mynda því að aðhaldsaðgerðir verða ekki á kostnað mikilvægrar grunnþjónustu og áfram verður unnið að því að efla velferð. Fjármálaáætlun styður með aðgerðum við nýgerða kjarasamninga sem eru lykilatriði í baráttunni við verðbólgu og vexti. Þessar aðgerðir styðja ekki síst við þá hópa sem hafa fundið mest fyrir verðbólgunni og munu skila sér í bættum aðstæðum á húsnæðismarkaði með áframhaldandi öflugri uppbyggingu í almenna íbúðakerfinu og eflingu húsnæðisbótakerfisins. Hér má t.d. nefna að einstæðar mæður og tekjulægri hópar eru líklegri til að vera á leigumarkaði og hærri húsnæðisbætur munu nýtast þeim. Eignaskerðingarmörk hækka og aukið tillit verður tekið til fjölskyldustærðar þar sem stærri fjölskyldur fá aukið svigrúm. Þá munu fyrirhugaðar breytingar á húsaleigulögum auka fyrirsjáanleika og stöðugleika á leigumarkaði.

Þegar hafa stór skref verið stigin til að efla barnabótakerfið. Með betri fjárhagslegri stöðu barnafjölskyldna er stuðlað að jöfnuði til framtíðar. Barnabætur verða hækkaðar um 5 milljarða kr. árið 2025, auk þess sem greiðslur til foreldra í fæðingarorlofi verða hækkaðar í þrepum á tímabilinu. En fleiri aðgerðir koma til. Við Vinstri græn höfum lengi talað fyrir því að börn fái næringarríkar máltíðir í skólanum að kostnaðarlausu. Þetta er mikið réttlætismál, virðulegi forseti, sem jafnar aðstöðumun barna og tryggir börnum úr fátækum fjölskyldum máltíð í skólanum. Þannig er í þessari fjármálaáætlun komið til móts við barnafjölskyldur og fólk í þröngri stöðu á húsnæðismarkaði.

Góðar og skilvirkar almenningssamgöngur eru einnig mikilvæg hagsbót fyrir barnafjölskyldur og fólk í þröngri fjárhagsstöðu en með auknum fjárveitingum til samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins verður unnið í haginn fyrir dýrmætar samgöngubætur eins og borgarlínu, öllum til heilla. Efling almenningssamgangna og fjölbreyttra ferðamáta stuðlar að auknu jafnrétti en konur og börn ferðast styttri vegalengdir og nota almenningssamgöngur meira. Samgöngusáttmálinn á höfuðborgarsvæðinu er gríðarlega mikilvægt framlag til orkuskipta og borgarlínan mun bylta samgöngum á höfuðborgarsvæðinu með tilheyrandi jákvæðum áhrifum á loftslag og loftgæði með auknu aðgengi og notkun almenningssamgangna.

Virðulegi forseti. Breytingar á örorkulífeyriskerfi eru meðal stærstu verkefna þessarar fjármálaáætlunar. Þetta eru löngu tímabærar og þarfar umbætur á örorkulífeyriskerfinu sem verður einfaldað, gert réttlátara og fjármagni beint til þeirra sem helst þurfa. Þessar breytingar verða jafnframt þær umfangsmestu sem lagt hefur verið í til að draga úr fátækt í íslensku samfélagi í áraraðir. Í síðustu fjármálaáætlun var gert ráð fyrir gildistöku laganna í janúar 2025 en til þess að stofnanir hefðu svigrúm og tíma til að innleiða breytingarnar — og mikilvægt samráð við hagsmunaaðila tók lengri tíma en áætlað var í upphafi — var óhjákvæmilegt að fresta gildistöku fram í september 2025. Vinnumarkaðsaðgerðir og vinnusamningar öryrkja eru óháðir þessari frestun og tryggðir á tímabili áætlunarinnar.

Virðulegi forseti. Það er gríðarlega mikilvægt að standa vörð um og styðja við menningarstarfsemi, ekki síst þegar áskoranir eru í efnahagslífinu. Með sérstöku ráðuneyti menningarmála, sem við Vinstri græn lögðum áherslu á í aðdraganda myndunar ríkisstjórnar eftir síðustu kosningar, er ljóst að menningin fær það mikilvæga súrefni sem hún þarf. Við sjáum m.a. árangurinn af því í þessari fjármálaáætlun. Fyrir utan þær ótvíræðu lýðheilsubætur og almenna velsæld sem stafar af menningu og listum aukast tekjur af skapandi greinum ár frá ári og hagræn áhrif þeirra eru því umtalsverð. Sem dæmi má nefna að afleidd efnahagsumsvif kvikmyndaiðnaðarins eru 240 milljarðar og má ætla að aðrar skapandi greinar leggi myndarlega með sér í þjóðarbúið. Í fjármálaáætlun kemur fram að framkvæmdir við nýtt húsnæði Listaháskóla Íslands í Tollhúsinu hefjist, sem er vel, þar sem mikilvægt er að búa vel að listafólki til framtíðar. Skólagjöld voru felld niður í Listaháskóla Íslands frá og með næsta skólaári og við sjáum árangurinn nú þegar í aukinni aðsókn að náminu. Að jafna aðgengi að listnámi á háskólastigi er mál sem við Vinstri græn höfum lagt mikla áherslu á og sjáum nú verða að veruleika. Samanlagt er þetta mesti stuðningur sem skapandi greinum og námi í þeim hefur hlotnast um langa hríð og mun vonandi skila okkur fleiri listamönnum því listir eru ekki síðri stoðgrein en hinar umræddu STEM-greinar að ógleymdri þeirri landkynningu sem listir og menning eru á erlendri grund. Listamenn eru bestu sendiherrarnir og því við hæfi að Íslendingar séu meðal þeirra þjóða sem setur hvað mest fjármagn í skapandi greinar.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur m.a. fram að áfram skuli unnið að þarfagreiningu vegna óperustarfsemi í landinu með það að markmiði að setja á laggirnar þjóðaróperu. Nú hefur hæstv. menningar- og viðskiptaráðherra lagt fram frumvarp um stofnun löngu tímabærrar þjóðaróperu. Þangað verða ráðnir 12 atvinnusöngvarar frá og með árinu 2025 samanber svör hæstv. menningar- og viðskiptaráðherra í þessari umræðu. Þeir munu geta nýtt sér grunnstoðir Þjóðleikhússins og þá innviði sem eru til staðar samkvæmt áðurnefndu frumvarpi. Þjóðarópera er mikill fengur fyrir söng- og kórþjóðina sem þetta land byggir.

Virðulegi forseti. Í síðustu kjördæmaviku heimsóttum við þingmenn Vinstri grænna alla framhaldsskóla á landinu og ræddum við skólastjórnendur, kennara og nemendur um þau málefni sem brýnust eru á framhaldsskólastiginu. Þetta voru í öllum tilfellum afar gagnleg samtöl og upplýsandi. Í mörgum þeirra kom m.a. fram að stuðningi við nemendur af erlendum uppruna er á flestum stöðum ábótavant og víða tækifæri til úrbóta. Mikilvægt er að stuðla að inngildingu nemenda af erlendum uppruna og úr hópi innflytjenda og hælisleitenda í grunn- og framhaldsskóla þannig að ungt fólk sem hingað flyst hafi tækifæri til jafns við önnur sem hér búa. Á tímabili fjármálaáætlunar verður lögð áhersla á að styðja við inngildingu innflytjenda í samfélagið, til að mynda með því að auka aðstoð við nemendur úr þeim hópi á öllum skólastigum og íslenskukennsla fyrir fullorðna styrkt, eins og nýleg heildarsýn ríkisstjórnarinnar í útlendinga- og innflytjendamálum kveður á um.

Virðulegi forseti. Við sem búum á harðbýlli eyju þurfum sannarlega að huga að fæðuöryggi sem verður eflt á komandi árum með ýmsum hætti. Má þar nefna innleiðingar verndandi arfgerða í íslenska sauðfjárstofninum gegn riðuveiki í landsáætluninni Riðuveikilaust Ísland og jarðræktarmiðstöð sem sett verður á laggirnar á Hvanneyri í Borgarfirði. Einnig verða fjárheimildir til loftslagsaðgerða í landbúnaði auknar sem er mikilvægur hlekkur í því að stemma stigu við loftslagsvánni. Fjármagn er tryggt til umfangsmikils eftirlits vegna frumvarps um lagareldi með það að markmiði að gæta að umhverfis- og dýraverndunarsjónarmiðum eins og best verður á kosið.

Virðulegi forseti. Við í Vinstrihreyfingunni – grænu framboði höfum sett okkar mark á þessa fjármálaáætlun með ýmsum hætti, hvort sem kemur að menningu, inngildingu, loftslagsáherslum og áherslum á málefni kvenna og barna og þeirra sem minna mega sín í samfélaginu. Við fögnum því hvernig tekist hefur að standa vörð um velferð, barnafjölskyldur og fólk í viðkvæmri stöðu og hvernig sjónarmið jöfnuðar og umhverfis eru á dagskrá í þessari fjármálaáætlun sem endranær þar sem við í VG komum að umræðunni.