154. löggjafarþing — 101. fundur,  23. apr. 2024.

lagareldi.

930. mál
[15:17]
Horfa

Teitur Björn Einarsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og yfirferð yfir þessi álitaefni sem hafa komið hérna upp. Það er auðvitað sjálfsagt að fara í dýpri umræðu um þetta, eins og hv. þingmaður kom inn á, og spyrja sig jafnvel: Hvað er auðlind? Hvernig varð þessi auðlind til? Hvaða auðlind erum við að tala um? Var hún til, þessi auðlind, á Vestfjörðum áður en fyrirtækin hófu starfsemi? Hvaða auðlind var það í fjörðunum sem var verið að hagnýta? Þetta er ágætisspurning. En mig langar að vera aðeins beinskeyttari og koma inn á nokkur atriði sem hv. þingmaður nefndi í sinni ræðu. Fyrst nefndi hann það í samanburði við Noreg að hér á Íslandi hafi ekkert verið greitt fyrir. Hvað er verið að tala um að greiða fyrir? Aðstöðuna? Að það sé sérstakt aðstöðugjald? Það var tekin upp gjaldtaka á fiskeldi 2019 og fiskeldisfyrirtækin eru að greiða gríðarlega hátt hlutfall af sínum tekjum eða framlegð eða hagnaði í skatt sem í rauninni getur ekki verið auðlindarenta, þetta er bara framleiðsluskattur eða veltuskattur. Þá vil ég spyrja hv. þingmann hvernig hann fær það út að ekki sé greitt fyrir þetta. Eins nefnir hann það að það séu hærri gjöld í Noregi. Ég er ekki alveg viss um að það sé svo einfalt að segja að þau séu hærri þar. Er hv. þingmaður meðvitaður um það að leyfin þar eru ótímabundin? Það er það sem skýrir þennan fyrirsjáanleika, skýrir það að verið er að greiða háan skatt (Forseti hringir.) en um leið eru fyrirtækin með þann fyrirsjáanleika sem þarf í starfsemi af þessu tagi.