154. löggjafarþing — 102. fundur,  24. apr. 2024.

stefna um stuðning Íslands við Úkraínu 2024--2028.

809. mál
[17:44]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Bjarna Jónssyni fyrir sína ágætu ræðu og framsögu og tek undir með honum að við hv. þingmenn í alþjóðastarfi höfum verið dugleg að halda málstað Úkraínu á lofti og þar hefur hv. þm. Bjarni Jónsson farið fram með miklum ágætum og staðið mikilvægan vörð um málstað Úkraínu á alþjóðavettvangi. En mig langar að spyrja hv. þingmann út í málsmeðferðinni á þessari tillögu og hvaða rök nefndin hefur fyrir því að hafa ákveðið að óska ekki eftir umsögnum um þetta mikilvæga mál. Ég tel ekki að það hafi legið svo mikið á því að klára það að ekki hafi verið hægt að óska eftir umsögnum og fá gesti með víðtæk sjónarmið, sér í lagi vegna þess að mér finnst vera ákveðin stefnubreyting fólgin í þessu plaggi sem snýr að því að við sjáum fyrir okkur að talsverður hluti af þessum fjármunum sem við ætlum að styrkja Úkraínu með fari í hergögn. Það er eitthvað sem ég held að herlaus þjóð ætti að íhuga vandlega og ætti skilið djúpa og lýðræðislega umræðu. Hér erum við í síðari umræðu um þetta mál. Við erum tveir hv. þingmenn fyrir utan framsögumann á mælendaskrá eins og sakir standa. Ég hefði viljað að kallað hefði verið eftir umsögnum frá hinum ýmsu samtökum sem hafa eitthvað að segja varðandi þetta mál og vil því spyrja hv. þingmann hvers vegna nefndin valdi að senda það ekki til umsagnar.