154. löggjafarþing — 102. fundur,  24. apr. 2024.

stefna um stuðning Íslands við Úkraínu 2024--2028.

809. mál
[18:49]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Frú forseti. Svarið við spurningu hv. þingmanns er jú. Ég átta mig á því og ég áttaði mig alveg á því þegar ég gerði Palestínu að umtalsefni hér undir lok minnar ræðu að það er viðkvæmt að blanda þessu tvennu saman. Hér erum við að ræða tillögu um Úkraínu og mér finnst mikilvægt að halda fókus á því. En ég vildi benda á það sem mér finnst vera ákveðið ósamræmi í því hvernig við nálgumst þessi tvö mál, þessi tvö stríð sem eru að gerast á sama tíma. Ég hef líka hitt Bill Browder og hann er áhugaverður maður. Ég get nú ekki kallað hann félaga eða eitthvað slíkt en ég hef lesið báða bækurnar hans og finnst þetta ótrúlega merkilegt líf sem hann hefur lifað og dáist að hans baráttu og veit að maður sem ég kalla vin minn, Vladímír Kara-Murza, vann mjög náið og þétt með honum að Magnitsky-löggjöfinni.

Mig langar líka að nota tækifærið til að segja frá því að ég fékk samþykkta samhljóða á Evrópuráðsþinginu tillögu til ályktunar um stuðningsaðgerðir gagnvart þeim sem hafa verið ofsóttir í Rússlandi og Belarús fyrir andstöðu sína gegn stríðinu í Úkraínu. Þetta er eitthvað sem hefði mátt bæta við þessa tillögu. Ég nefnilega tel að þessi tillaga sé frábær grunnur en það hefði verið hægt að vinna hana og bæta við hana hlutum sem skipta verulegu máli þegar kemur að þessari baráttu og þar erum við m.a. að tala um að styðja við fólk sem er aktíft að vinna gegn stríðinu í Rússlandi, þar á meðal Vladímír Kara-Murza og aðrir sem eins og hann eru að berjast gegn þessu stríði. Ég vil hvetja alla hv. þingmenn til að kynna sér þessa ályktun sem, eins og ég sagði, var samþykkt samhljóða í Evrópuráðsþinginu í síðustu viku. Hún felur í sér tilmæli til aðildarríkjanna um stuðningsaðgerðir til handa þeim sem standa gegn stríðinu í þessum tveimur löndum, Rússlandi og Belarús, og hún gæti átt mikilvægan þátt í því að styðja við að lýðræðislegri öfl taki yfir í þeim löndum.