154. löggjafarþing — 102. fundur,  24. apr. 2024.

fyrirtækjaskrá o.fl.

627. mál
[19:28]
Horfa

Ágúst Bjarni Garðarsson (F):

Frú forseti. Ég mæli fyrir hönd meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lögum um fyrirtækjaskrá, lögum um hlutafélög, lögum um einkahlutafélög, lögum um ársreikninga og lögum um skráningu raunverulegra eigenda.

Ef við förum yfir helstu atriði þá er með frumvarpinu annars vegar lagðar til breytingar á lögum um hlutafélög, lögum um einkahlutafélög og lögum um ársreikninga sem heimila ríkisskattstjóra að skiptast á upplýsingum við fyrirtækjaskrár annarra EES-ríkja í gegnum samtengingarkerfi miðlægra skráa. Hins vegar eru lagðar til breytingar á lögum um fyrirtækjaskrá og lögum um skráningu raunverulegra eigenda. Ríkisskattstjóri veitir því upplýsingar um raunverulegt eignarhald samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2015/849, en samkvæmt henni ber aðildarríkjum að tryggja að miðlægar skrár verði samtengdar í gegnum miðlæga evrópska vettvanginn sem komið var á fót með tilskipun (ESB) 2017/1132. Fyrir vikið eru jafnframt lagðar til breytingar á lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög sem kveða á um heimildir ríkisskattstjóra til að vinna með persónuupplýsingar að því marki sem nauðsynlegt er til að sinna hlutverki sínu samkvæmt lögunum.

Varðandi samráð og þær breytingar sem lagðar eru til þá fjallaði nefndin um málið, fékk á sinn fund gesti og bárust umsagnir. Greint er frá því í nefndaráliti sem liggur frammi. Meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar leggur til breytingar á frumvarpinu og ég ætla að leyfa mér, frú forseti, að fara aðeins yfir þær.

Lagðar eru til breytingar er varða ábendingar sem fram komu í umsögn Skattsins. Bent var á að í 1. gr. og 3. mgr. 10. gr. frumvarpsins væru talin upp hlutafélög, einkahlutafélög og útibú erlendra hlutafélaga og einkahlutafélaga en samlagsfélög væru ekki tilgreind. Þó kæmi fram í greinargerð sem fylgdi frumvarpinu að tilskipunin tæki til hlutafélaga, einkahlutafélaga og samlagsfélaga. Í minnisblaði menningar- og viðskiptaráðuneytis var talið að um réttmæta ábendingu væri að ræða. Í samráði við ráðuneytið leggur meiri hluti nefndarinnar því til að samlagsfélög bætist við ákvæðin.

Í 10. gr. frumvarpsins er lagt til að ný grein, 109. gr. a, bætist við lög um ársreikninga sem varði veitingu aðgangs að ársreikningum í gegnum samtengingarkerfi skráa. Í umsögn Skattsins var talið rétt að jafnframt yrði gerð breyting á núgildandi 109. gr. laganna í því skyni að tryggja fullnægjandi vinnsluheimildir persónuupplýsinga á grundvelli laganna sem tæki þá til framangreindrar vinnslu sem og annarrar. Með vísan til minnisblaðs ráðuneytis leggur meiri hlutinn til viðeigandi breytingu. Þá eru lagðar til breytingar er varða vinnslu persónuupplýsingar.

Í b-lið 2. gr., 5. gr. og 8. gr. frumvarpsins er lagt til að við lög um fyrirtækjaskrá, lög um hlutafélög og lög um einkahlutafélög bætist heimild ríkisskattstjóra til vinnslu persónuupplýsinga að því marki sem honum er það nauðsynlegt til að sinna hlutverki sínu samkvæmt nefndum lögum, svo sem vegna skráningar upplýsinga í fyrirtækja- og hlutafélagaskrá. Í umsögn sem nefndinni barst frá Persónuvernd var lögð til sú viðbót við ákvæðin að vinnsla persónuupplýsinga samkvæmt lögunum skyldi samræmast lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Þá kom fram í umsögn frá Skattinum um umrædd ákvæði frumvarpsins að mikilvægt væri að kveðið yrði á um það með ótvíræðum hætti að við þá vinnslu persónuupplýsinga sem um ræddi hvíldi skylda á ríkisskattstjóra til þess að miðla persónuupplýsingum frekar en að ákvörðun um vinnslu væri háð túlkun ríkisskattstjóra á matskenndum heimildarákvæðum.

Jafnframt eru lagðar til breytingar samkvæmt tillögum ráðuneytis. Fram kom tillaga um breytingu á 6. tölulið 4. gr. laga um fyrirtækjaskrá svo að skýrt yrði kveðið á um það í lögunum að þegar við ætti skyldi skrá upplýsingar í fyrirtækjaskrá um stjórnarmenn og varamenn, prókúruhafa, framkvæmdastjóra, endurskoðendur og skoðunarmenn, félagsmenn í sameignar- og samlagsfélögum og aðra forráðamenn allra þeirra lögaðila sem skráðir eru í fyrirtækjaskrá. Loks eru lagðar til minni háttar eða lagatæknilegar breytingar sem þarfnast ekki sérstakrar umfjöllunar hér. Vísast að öðru leyti til ítarlegri umfjöllunar um breytingartillögur í nefndaráliti meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.

Virðulegi forseti. Að framansögðu virtu leggur meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð hefur verið grein fyrir og lagðar eru til í sérstöku þingskjali.

Undir álit meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar rita auk þess sem hér stendur hv. þingmenn Teitur Björn Einarsson, Diljá Mist Einarsdóttir, Jóhann Friðrik Friðriksson, Guðbrandur Einarsson, Oddný G. Harðardóttir og Steinunn Þóra Árnadóttir.