154. löggjafarþing — 103. fundur,  29. apr. 2024.

nýtt örorkulífeyriskerfi og fjármögnun kjarasamninga.

[15:22]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Við gerð fjármálaáætlunar í fyrra var gert ráð fyrir því að nýtt örorkulífeyriskerfi tæki gildi 1. janúar 2025. Það tók síðan lengri tíma heldur en gert var ráð fyrir að vinna frumvarpið eins og stundum gerist og það var eindregið mat þeirra sem koma að því að þurfa að innleiða þessar breytingar, ekki síst Tryggingastofnunar, að það myndi ekki gefast nægur tími til að gera það fyrir 1. janúar á næsta ári og þyrftu þau þess vegna lengri tíma. Það er nú ástæðan fyrir því að gildistökunni var frestað eins og kemur fram í frumvarpinu sjálfu. Ég held að við eigum að fagna því að hér séu að koma 18 nýir milljarðar inn í kerfi almannatrygginga til örorkulífeyrisþega. Þeir koma aðeins seinna inn heldur en gert var ráð fyrir og þess vegna er sérkennilegt að segja að þar með sé verið að fjármagna kjarasamninga, með þessari frestun. En þeir koma vissulega seinna inn, það er alveg hárrétt, átta mánuðum seinna, og á meðan er ekki fjármagn, þetta aukna fjármagn, að fara inn í þennan málaflokk, á þessum átta mánuðum, en þeir koma svo sannarlega á ársgrundvelli þá frá og með 1. september 2025.