154. löggjafarþing — 103. fundur,  29. apr. 2024.

ótímabundið rekstrarleyfi til sjókvíaeldis.

[15:26]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Herra forseti. Fyrir Alþingi liggur nú frumvarp þar sem lagt er til að laxeldisfyrirtæki, sem eru að mestu í eigu norskra auðkýfinga, fái varanlegan afnotarétt, varanlegan aðgang að fjörðum Íslands, að gefin verði út ótímabundin rekstrarleyfi til sjókvíaeldis og að þeim leyfum sem þegar hafa verið gefin út með tímabundnum hætti verði úthlutað varanlega til sömu aðila endurgjaldslaust sem geta svo veðsett þau og framselt. Hér erum við að tala um frumvarp sem farið hefur um hendur þriggja ráðherra Vinstri grænna; Svandísar Svavarsdóttur, Katrínar Jakobsdóttur, og svo núverandi hæstv. ráðherra Bjarkeyjar Olsen Gunnarsdóttur sem flutti málið hér í þingsal í síðustu viku og hefur talað eindregið fyrir því að leyfin verði gefin út með þessum hætti, án tímabindingar. Er hæstv. ráðherra og formaður Vinstri grænna, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, sammála þessari nálgun? Er hann hlynntur því að fyrirtækjum séu veitt varanleg yfirráð yfir sameiginlegum auðlindum okkar Íslendinga? Hvers vegna kemur málið inn á Alþingi í þessari mynd? Er þetta sérstakt áherslumál hjá hans flokki?