154. löggjafarþing — 103. fundur,  29. apr. 2024.

ótímabundið rekstrarleyfi til sjókvíaeldis.

[15:28]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Í fyrsta lagi vil ég segja það að sjókvíaeldi hefur auðvitað vaxið allt of hratt hér við land án þess að lagarammi, án þess að eftirlit hafi fylgt með og ég vil bara byrja á því að undirstrika mikilvægi þess að koma böndum á sjókvíaeldi í landinu og um það held ég að við séum mörg sammála hér inni. Lögin í dag eru alls ekki nógu góð og þeim verður að breyta. Að þessu hefur verið unnið á undanförnum misserum, einmitt undir stjórn ráðherra VG, og ég vil meina að í því frumvarpi sem hér hefur verið lagt fram séu mörg framfaraskref tekin, t.d. að við erum að lögfesta friðunarsvæði gegn sjókvíaeldi, t.d. að við erum að koma á sérstökum smitvarnarsvæðum, að það verði hægt að beita sektum vegna stroks og margt fleira.

Varðandi ótímabundið leyfi þá hefur hæstv. ráðherra Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir lýst því yfir að hún sé algerlega tilbúin til að skoða það með nefndinni að gera breytingar og kom það fram í viðtali við hana núna fyrir helgina. Hvers vegna kemur frumvarpið svona fram? Minn skilningur er sá að matvælaráðuneytið hafi við smíði frumvarpsins tekið fyrir sjónarmið um bæði tímabundin og ótímabundin leyfi. Það hafi komið til ítarlegrar skoðunar og sérstaklega í samhengi við möguleikann á því að geta beitt sem ströngustum viðurlögum við brotum á lögunum, þ.m.t. leyfissviptingu, og það sé auðveldara ef um ótímabundið leyfi er að ræða. Þetta er lögfræði og ráðuneytið ákvað að fara eftir þessum ráðleggingum en ég skil og deili áhyggjum hv. þingmanns og margra annarra þingmanna hér inni og hef verið fylgjandi því að við séum með tímabundið leyfi. Ég held því að það sé mjög mikilvægt að við skoðum það vandlega með það að markmiði að geta þá tryggt sömu umhverfiskröfur með tímabundnu leyfi (Forseti hringir.) eins og talið er að sé hægt að gera með ótímabundnu.