154. löggjafarþing — 103. fundur,  29. apr. 2024.

skaðaminnkandi úrræði fyrir fólk með fíknivanda.

[15:33]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Forseti. Með leyfi forseta:

„… ég hef ekki þurft að brjóta af mér í heilt ár. Ég hef ekki þurft þess. Hef ekki einu sinni þurft að hugsa um það […] Ég hef getað kúplað mig algjörlega út úr undirheimunum.“ — segir Maríanna Sigtryggsdóttir sem er heimilislaus með fíknivanda.

Í janúar síðastliðnum var læknir sviptur leyfi til að ávísa lyfjum til sinna sjúklinga þar sem hann hafði tekið upp á arma sína tiltekið skaðaminnkunarúrræði sem fólst í því að skrifa upp á lyf fyrir fólk með fíknivanda, ávísanir sem ekki voru taldar samræmast gildandi lögum og reglum. Verkefnisstjóri skaðaminnkunar á Landspítalanum sagði áður en sú ákvörðun kom til framkvæmdar að ákvörðun sem þessi myndi hafa hræðilegar afleiðingar fyrir viðkvæman hóp fólks og velti því upp hvort ákvörðunin hefði verið hugsuð til enda.

Í ræðu þann 5. febrúar síðastliðinn sagði sú er hér stendur orðrétt, með leyfi forseta:

„Athafnir læknisins verða að sjálfsögðu raktar til þess að skortur hefur verið á skaðaminnkandi úrræðum fyrir fólk með fíknivanda hér á landi. Því er mikið ábyrgðarleysi fólgið í því að kippa úr sambandi úrræði sem eðlilega eru deildar meiningar um án þess að tryggja að eitthvað taki við fyrir þá einstaklinga sem í hlut eiga. Líklegar afleiðingar þess eru þær að fólk í neyð leiðist út í afbrot auk þess sem það útsetur það enn frekar fyrir misnotkun og ofbeldi.“

Til viðbótar við skýrt og ítrekað ákall úr samfélaginu, frá heilbrigðisstarfsfólki og fólki í vanda sem þó sjaldan fær almennilega áheyrn, höfum við þingmenn Pírata lagt fram frumvarp eftir frumvarp, haldið hér ræðu eftir ræðu til að reyna að opna augu ríkisstjórnarinnar fyrir veruleikanum, þeirri neyð sem hópur fólks er í hér á landi. Aðspurður hefur hæstv. ráðherra vísað til starfshóps á hans vegum sem ætlað var að skila drögum að stefnu og aðgerðaáætlun til ráðherra eigi síðar en 15. mars síðastliðinn.

Í tilefni fréttaflutnings af vopnuðum ránum í apótekum í kjölfar þessarar sviptingar vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Kemur þessi staða (Forseti hringir.) ráðherra á óvart? Hvers vegna var ekki tryggt að fyrir hendi væru úrræði (Forseti hringir.) til að grípa þennan hóp áður en í óefni væri komið?