154. löggjafarþing — 103. fundur,  29. apr. 2024.

aðgerðir vegna kynbundins ofbeldis og heimilisofbeldis.

[15:48]
Horfa

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég beini fyrirspurn minni til hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra. Stjórnvöld bera ábyrgð gagnvart þolendum ofbeldis, m.a. samkvæmt Istanbúl-samningnum sem fullgiltur var hér á landi 2018. Samkvæmt samningnum ber okkur skylda til að tryggja vernd og stuðning gegn ofbeldi gagnvart konum og heimilisofbeldi með lagasetningu eða öðrum hætti. Við verðum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að hlúa að þolendum ofbeldis sem hefur langvarandi og jafnvel eilíf áhrif, sama í hvaða formi það birtist. Mikilvægt starf hefur verið unnið hér á landi hvað varðar þjónustu við þolendur ofbeldis en eins og fram kom í umræðum um þennan málaflokk í kjölfar fyrirspurnar minnar til hæstv. ráðherra á 153. löggjafarþingi er enn verk að vinna.

Skipaður var starfshópur sem falið var að skoða laga- og reglugerðarumhverfi þjónustu vegna ofbeldis og koma með tillögur um hvernig best megi tryggja þá þjónustu sem standa þarf bæði þolendum og gerendum ofbeldis til boða. Í fyrravor skilaði starfshópurinn skýrslu með tillögum. Í skýrslunni og tillögum hópsins kemur m.a. skýrlega fram nauðsyn þess að festa í löggjöf og reglugerðir ákvæði um vernd og stuðning við þolendur ofbeldis og úrræði fyrir gerendur til að koma í veg fyrir ofbeldi. Einnig kemur fram nauðsyn þess að félagasamtökum og öðrum aðilum sem veita lögbundna þjónustu til þolenda og gerenda ofbeldis verði tryggð langtímafjármögnun. Þess má geta að þolendamiðstöðvar sem hafa unnið þrekvirki í málaflokknum heyra undir þessa skilgreiningu.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Hvað er búið að gera og hvaða aðgerðir hefur verið ráðist í eftir skil starfshópsins? Hvað hyggst ráðherra framkvæma í þessum málaflokki fram að lokum núverandi kjörtímabils?