154. löggjafarþing — 104. fundur,  30. apr. 2024.

Störf þingsins.

[14:03]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ég las það í danska blaðinu Politiken í morgun að Danir hafi þróað grænt reiknilíkan sem gæti orðið næsta útflutningsævintýri Dana í þágu loftslags og umhverfis. Græna reiknilíkanið á að hjálpa til við að móta græna ríkisfjármálastefnu. Politiken segir að mikill erlendur áhugi sé á nýju grænu kristalskúlunni, sem kallast „grøn reform“ og danskir vísindamenn hafa þróað í samstarfi við danska fjármálaráðuneytið. Reiknilíkanið getur sýnt hvernig breytingar á ríkisfjármálum hafa áhrif á loftslag og umhverfi og öfugt. Dönsk greiningarstofnun er að þróa verklag um hvernig beita megi græna reiknilíkaninu í Póllandi, Ítalíu, Finnlandi og Belgíu. Hugmyndin er að löndin sendi fulltrúa til Danmerkur þar sem þeir fá kennslu í því hvernig Danir hanna módelið og móta tæknina. Síðan smíða þeir það sem þeir kalla smáútgáfu af reiknilíkaninu sem löndin geta notað til að greina loftslagsstefnu sína og meta kostnaðinn og áhrifin á ríkisfjármálin. Módelið á að gera löndunum kleift að beina fjármunum í þær áttir sem gefa mestan árangur í loftslags- og umhverfismálum. Það er ekki slæm hugmynd, forseti, fyrir íslenska ráðamenn að leita ráða hjá Dönum í þessum efnum. Okkur hefur ekki gengið svo vel hingað til. Við þurfum í það minnsta að kannast við mikilvægi umhverfis fyrir efnahag og velferð almennings. Umhverfið ræður lífsskilyrðum fólks, dýra og plantna. Við þurfum að anda að okkur fersku lofti. Við þurfum ferskt vatn til að drekka, land til að rækta, loftslag til að gera jörðina byggilega og ósonlag til að vernda heilsu manna. Umhverfið gegnir lykilhlutverki fyrir hagkerfið og við þurfum að haga efnahagslífinu þannig að það mæti þeim áskorunum sem við stöndum frammi fyrir. Látum það snúast um fólk og auðlindir, ekki bara um peninga heldur um lífvænlegt umhverfi.