154. löggjafarþing — 104. fundur,  30. apr. 2024.

Staðan og aðgerðir í loftslagsmálum.

[14:26]
Horfa

Jódís Skúladóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ríkisstjórnin hefur sammælst um það í stjórnarsáttmála að Ísland muni setja sér sjálfstætt markmið fyrir losun á beinni ábyrgð Íslands um 55% samdrátt árið 2030 miðað við losun ársins 2005. Það merkir að við verðum að draga úr losun um 6–7% næstu árin. Orkuskipti eru í fullum gangi og hvort sem við horfum til bíla- eða skipaflota eru aðgerðir komnar á fullt. En, virðulegi forseti, hvar eru tækifærin? Mér finnst mikilvægt að við höfum heildarmyndina í huga þegar við hugum að þessum málum. Langveigamesti flokkurinn þegar kemur að losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi er iðnaður en í þeim flokki jókst losun um 122% á árunum1990–2021. Þar hefur losun frá staðbundnum iðnaði eins og ál- og kísilverum aukist um 116% frá árinu 2005 og samsvarar það allt að 40% af losun Íslands ef landnotkun og skógrækt eru ekki reiknuð með. Sá hluti er ekki á beinni ábyrgð stjórnvalda og við verðum að horfast í augu við þá staðreynd, ekki síst í umræðunni um aukna orkuöflun.

Virðulegi forseti. Af hverju eigum við að afla grænnar orku, jafnvel með sársaukafullum ágangi á náttúruna og samfélagslega samstöðu, til að selja hana síðan fyrirtækjum sem bera ábyrgð á mestri losun gróðurhúsalofttegunda? Er það ekki eitthvað öfugsnúið?