154. löggjafarþing — 104. fundur,  30. apr. 2024.

Staðan og aðgerðir í loftslagsmálum.

[14:30]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Frú forseti. Það er ástæða til að þakka hv. málshefjanda fyrir þessa umræðu. Þetta er mjög stórt mál og aldrei of oft rætt en ekki hvað síst vegna þess að oft gera menn mjög stór mistök þegar þeir eru að fást við stór mál og ekki hvað síst á það við um þetta. Það hvernig núverandi ríkisstjórn hefur nálgast þetta er mjög í anda stjórnvalda víðar á Vesturlöndum, þótt það sé yfirlýst markmið þessarar ríkisstjórnar að toppa flest ef ekki öll önnur lönd. Og vegna þess að menn hafa ekki litið á heildarmyndina og langtímaáhrifin hafa afleiðingarnar fyrst og fremst orðið þær að flytja framleiðslu og verðmætasköpun frá þessum löndum annað og það jafnan til landa sem menga miklu meira og losa meiri gróðurhúsalofttegundir við þessa sömu framleiðslu sem svo þarf að flytja með ærnum tilkostnaði og losun aftur til Vesturlanda. Það er því mjög mikilvægt, sérstaklega þegar menn eru að fást við svona stórt mál, að líta á heildarmyndina og langtímaáhrifin. Staða þýsks iðnaðar og raunar bara þýsks hagkerfis fyrir vikið ætti að vera ríkisstjórn Íslands víti til varnaðar og hvetja hana til að endurskoða það með hvaða hætti tekist er á við loftslagsmálin hér. Það besta sem Ísland getur gert fyrir loftslagsmálin, ef við lítum á heildarmyndina, er að framleiða sem mesta endurnýjanlega umhverfisvæna orku og framleiða sem mest af vörum hér á Íslandi með þeirri góðu grænu orku sem við höfum og þurfum að nýta mikið betur.

Í seinni ræðu mun ég koma nánar inn á samanburðinn við önnur lönd, þ.m.t. Kína, og reyna áfram að útskýra fyrir ríkisstjórninni hvers vegna hún þurfi fyrir alla muni að líta á heildarmyndina og langtímaáhrifin en það skortir algerlega í þessum málaflokki.