154. löggjafarþing — 104. fundur,  30. apr. 2024.

Staðan og aðgerðir í loftslagsmálum.

[14:37]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Við þurfum að koma á víðtækri þjóðfélagsumræðu um samfélag fyrir alla, um samfélag sem byggir ekki einungis á þeirri hugmynd að svo lengi sem við framleiðum og neytum meira og meira þá sé allt gott, vegna þess að þar eru takmörk. Við þurfum að ræða um væntingar og vonir um samfélag eftir grænu umskiptin. Hvernig viljum við sjá það samfélag? Náttúran, umhverfið og loftslagið þola ekki að haldið sé áfram líkt og við gerum.

Losun gróðurhúsalofttegunda hefur ekki þróast í þá átt sem til stóð. Staðreyndirnar tala sínu máli og sýna að loftslagsmálin snúast ekki um val um lífsstíl heldur um lífið sjálft. Allir verða að vera með. Þess vegna þurfa stjórnvöld að vinna samhliða að mannréttindum og auknum jöfnuði. Fólk sem nær ekki endum saman um hver mánaðamót þolir ekki frekari álögur. Stjórnarflokkarnir geta gert málamiðlanir sín á milli líkt og dæmin sanna en þeir geta ekki gert málamiðlun við loftslagið. Hamfarahlýnun er staðreynd og veldur æ meiri skaða. Stjórnmálamenn verða að vera óhræddir við að leiða óumflýjanlegar samfélagsbreytingar. Við megum ekki vera svo hrædd að við þorum ekki að boða það sem nauðsynlegt er. Það er meira í húfi en fylgi einstakra flokka. Almenningur er tilbúinn til að leggja ýmislegt á sig fyrir komandi kynslóðir en stjórnvöld þurfa að vísa veginn með raunhæfum aðgerðum þar sem almenningur hefur krefjandi en viðráðanlegt hlutverk og hið sama á við um fyrirtæki og stofnanir. Við þurfum forystu óhræddra ráðamanna sem byggja upp samkennd og sátt um óumflýjanlegar breytingar og annars konar neysluvenjur.