02.03.1978
Sameinað þing: 51. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2725 í B-deild Alþingistíðinda. (1999)

197. mál, lifnaðarhættir æðarfugla

Flm. (Þorleifur K. Kristmundsson) :

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja ásamt Inga Tryggvasyni, 6. þm. Norðurl. e., þáltill. á þskj. 387, sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela landbrh. að láta framkvæma vísindalega rannsókn á lifnaðarháttum æðarfuglsins.“

Ástæðan til þess, að þessi þáltill. er flutt, er einfaldlega sú staðreynd, að æðarvarpi hefur hrakað mjög mikið frá árum síðari heimsstyrjaldarinnar, svo sem sjá má af tölum í meðfylgjandi grg. um dúntekju. En eins og þar segir var meðalútflutningur á dún á árunum 1864–1913 nálega 3400 kg árlega, en ekki er í þessari tölu sá dúnn sem notaður var innanlands. En ársmeðaltal allrar dúntekju, bæði útflutts og notaðs innanlands, á árunum 1943–1960 var aðeins 2100 kg árlega.

Einn merkasti þáttur í sögu þjóðar okkar undanfarna áratugi hefur verið baráttan við að halda landinu öllu sem mest í byggð. Augljóst er, að til að svo megi sem best takast þarf að tryggja afkomu fólks í hinum dreifðu byggðum, og er enginn vafi á því, að nýting ýmissa hlunninda hlýtur að vera stór hluti í afkomunni. Samkv. fasteignamati 1970 eru skráðar 270 jarðir í landinu með dúntekju, þannig að rösklega 8 kg af dún koma þá að meðaltali í hluta hverrar jarðar samkv. upplýsingum um dúntekju á s. l. ári, en hún var um 2200 kg. Ekki er vafi á því, að varpstöðvum má fjölga allmikið víða um land og að skilyrði fyrir mun stærri stofn æðarfugls eru hér, þó að auðvitað séu því takmörk sett af náttúrunni, hve stór stofninn geti verið. Það er margt sem veldur því, að æðarstofninn er langt frá því að vera í fullri og eðlilegri stærð. Æðarfuglinn á marga óvini, og margar aðgerðir okkar, sem byggjum þetta land, valda því, að mikil röskun hefur orðið í lífríki æðarfuglsins. Nokkurra óvina æðarfuglsins er getið meðfylgjandi grg., og langar mig að ræða þann þátt nokkru nánar hér.

Öll þekkjum við olíumengunina, en sem betur fer er baráttan gegn henni komin í fullan gang og þar hafa Íslendingar staðið mjög vel að verki. En þessi skaðvaldur skemmir og eyðileggur fleira en æðarfuglinn. Þannig er nú málum komið að gera verður ráð fyrir, að þessi óvinur sé á undanhaldi. Aftur á móti er vargfuglinn mjög vaxandi óvinur í lífríki æðarfuglsins. Þegar ég tala um vargfugl, þá á ég ekki aðeins við svartbakinn og hrafninn, ég held að nánast allar mávategundir éti egg og unga æðarkollunnar. Svartbakurinn er t. d. ekki nærri eins mikill skaðvaldur á Austurlandi og silfurmávurinn, sem er í stórum flokkum þar og er, að því er mér best skilst, að dreifast meira og meira yfir landið með ári hverju. Og þó það komi ekki æðarfuglinum beint við, þá er ekki vafi á því, að þessi fugl, silfurmávurinn, étur egg og unga nánast allra minni fugla og á áreiðanlega mikinn þátt í því, hve mófuglum hefur fækkað hér á landi. Og það sakar ekki að minna á að lax mun verða fyrir miklum ágangi af svartbaki og vafalaust af silfurmávi, þar sem hann er kominn, en fuglar þessir vaka yfir árósum og veiða þar gönguseiði í miklu magni. Ég hef fengið nokkrar upplýsingar um þetta frá veiðimálastjóra og nokkrum þeim sem eiga hagsmuna að gæta vegna laxauppeldis og laxveiða.

Auðvitað er mörgu um að kenna, hve geigvænleg offjölgun máva og hrafna er. Slógi og lifur er hent í hafið af nánast öllum fiskimönnum okkar, grásleppuveiðimenn slægja jafnvel niður í lögn í stað þess að flytja allan þennan úrgang í land og reyna að nýta hann í fiskimjölsverksmiðjum, og vargfuglinn er mataður árið um kring í verstöðvum allt í kringum landið. Þeir eru víða og þeir eru margir opnu sorphaugarnir, þar sem vargfuglinn flögrar hundruðum og jafnvel þúsundum saman í ætisleit. Allt eru þetta þættir í uppeldi vargsins og burt séð frá æðarfuglinum er þetta ljót og sóðaleg umgengni okkar á landinn og hafinu umhverfis það. Þessi sóðaumgengni veldur mengun í náttúrunni og skapar jafnframt mikil umhverfisvandamál.

Rétt og skylt er að geta þess, að nokkuð hefur verið unnið að útrýmingu svartbaks og hrafns, bæði á vegum veiðistjóra í samráði við aðra og á vegum varpbænda, aðallega við Breiðafjörð. Samkv. skýrslu veiðistjóra voru 2126 svartbakar og 596 hrafnar skotnir á árinu 1977 og Páll Leifsson veiðimaður, sem hefur unnið fyrir æðarbændur við Breiðafjörð og fyrir Stykkishólmshrepp, mun á s. l. ári hafa skotið um 3200 svartbaka og 177 hrafna. Allt er þetta til mikilla bóta fyrir varpið. En það er jafnframt athyglisvert í skýrslu veiðistjóra, að það eru miklu fleiri en æðarbændur sem verða fyrir ágangi af vargfuglinum. Þessum orðum til staðfestu vil ég leyfa mér að vitna í bréf Búnaðarfélags Íslands til hv. fjvn. Alþ. frá 30. nóv. s. l., en þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Til frekari upplýsinga fyrir fjvn. um það, hversu mikill vágestur flugvargurinn er orðinn á ýmsum sviðum, skulu hér tilfærðir nokkrir aðilar, sem veiðistjóri veitti meiri háttar aðstoð á liðandi ári: Dalvík: Veiðifélag Svarfaðardals, Blönduós: sveitarfélagið Húsavík: Fiskiðjusamlag Húsavíkur, Ölfus: sauðfjárbóndi, Hrunamannahreppur: bændur vegna hænsnasláturhúsa í sveitinni, Austur-Landeyjar: hrossabóndi, Austur-Eyjafjöll: kornræktarbóndi, Miðnesheiði: heilbrigðisfulltrúi Suðurnesja, Reyðarfjörður: veiðifélag og sveitarstjórn, Hella: veiðifélag Rangárvalla.

Flestar sýslunefndir í landinu gerðu samþykktir á sýslufundi 1977, þar sem óskað var eftir aðstoð veiðistjóra við fækkun flugvargs. Vegna fjárskorts gat veiðistjóraembættið ekki komið til móts við þær umleitanir nema í litlu.

Ótal einstaklingar og félagasamtök önnur en að framan eru talin hafa leitað ásjár hjá veiðistjóra á árinu varðandi varginn og nú síðast Fuglavinafélag Norðurlands, sem gjarnan vill viðhalda íslensku náttúrufari og sjá fjölskrúðugra fuglalíf en varginn.“

Það er greinilegt af þessu bréfi, að vargfuglinn er víðar vágestur en í æðarvarpi, já, greinilega orðinn hrein plága í öllu lífríki Íslands og í fjölda atvinnugreina svo sem sjá má af upptalningunni í áðurnefndu bréfi. Og víst vekur það athygli mína og efalaust margra fleiri, að enginn æðarbóndi er í upptalningu veiðistjóra. Það er greinilegt, að fjárskortur veiðistjóra veldur því, að ekki er hægt að sinna öllum hjálparbeiðnum og svo komið að aðrir hafa hafist handa, svo sem sjá má af framtaki æðarbænda við Breiðafjörð, af framtaki Stykkishólmshrepps og vafalítið fleiri. Ég get bætt því við, að sýslunefnd Suður-Múlasýslu lagði nokkra fjárhæð fram á s. l. ári og er nú verið að nota hana í samráði við veiðistjóra og Pál Leifsson. Skotlaun fyrir svartbak eru svo hlálega lág, 20 eða 25 kr., að það mun þurfa að ná minnst þremur fuglum í skoti til þess að hafa fyrir verði skotsins, hvað þá fyrirhöfninni að innheimta skotlaunin, og engin skotlaun eru greidd fyrir silfurmávinn.

Netalagnir á grunnslóð eru einn vágesturinn. Enginn vafi er á því að það er ekki nóg að ákveða einhvern faðmafjölda frá landi sem takmörk fyrir því, hvar leggja má hrognkelsanet. Það þyrftu líka að vera dýptartakmörk, enda skilst mér að það sé aðallega í grynnst lögðu netunum sem æðarfuglinn er drepinn í stórum stil. Það er raunar augljóst, að nokkrir hagsmunaárekstrar eru á milli æðarbænda og hrognkelsaveiðimanna. En ég minntist þess, þegar ég var að hugsa um að bera þessa þáltill. fram, að á s. l. ári kvörtuðu hrognkelsaveiðimenn um mjög minnkandi veiði. Þess vegna leitaði ég til fiskimálastjóra um upplýsingar þar að lútandi og fékk þetta að vita um grásleppuveiðar, þ. e. a. s. aðeins um veiði á grásleppu, en ekki rauðmaga:

Veiðarnar hafa verið vaxandi á undanförnum árum, voru árið 1975 5700 lestir og svo í hámarki á árinu 1976 og voru þá 6926 lestir. Af þessari lestatölu munu vera um 30% hrogn. En á árinu 1977 varð veiðin aðeins 5030 lestir. Fiskimálastjóri segir, að ekki sé vitað af hverju grásleppuveiðin minnkaði svo mikið, en rannsókn er í gangi á hrognkelsum.

Nú gæti maður látið sér detta í hug, að ofveiði sé þáttur í minnkandi grásleppuveiði. Komi það í ljós í rannsókn þeirri, sem nú er verið að gera á hrognkelsum, liggur það ljóst fyrir, að friðunaraðgerðir vegna hrognkelsastofnsins verða að vera gerðar með tilliti til æðarfuglsins. Á ég þá við, að bæði þyrfti að auka það dýpi, sem net eru lögð á, og jafnframt að friða lengra út frá varplöndum en nú má gera.

Þá er minkurinn mikill skaðvaldur í æðarvarpi og raunar í öllu lífríki íslenskrar náttúru og þarf að herða róðurinn í útrýmingu hans. Mér er sagt, að litlar ár og lítil vötn séu í mestu hættu fyrir minknum og víða hafi allt fisklíf í litlum ám og litlum vötnum nánast eyðst.

Eins skaðvaldsins er ekki getið í grg., en það eru byssumenn og skemmdarvargar. Ekki er mér ljóst hvað skyttur valda miklum skaða, en hann er talsverður sums staðar, og ekki bætir úr skák þegar einhverjir óþokkar fara í varplöndin og hreinlega eyða þeim af einhverri skemmdarfýsn, eins og nýlegt dæmi er um vestan af Snæfellsnesi.

Ekki er minnst á örninn í grg. sem hér fylgir. Þar er mjög sérstætt vandamál á ferðinni, svo sem heyra mátti af umr. í hv. Nd. í gær um frv. til l. um breyt. á lögum nr. 33 frá 1966, um fuglaveiðar og fuglafriðun, á þskj. 399. En vafalítið yrði það vandamál rannsakað, ef sú hugmynd um vísindalega rannsókn á lifnaðarháttum æðarfuglsins, sem þessi þáltill. felur í sér, verður að veruleika.

Ég hef aðeins hér áður drepið á tölur, sem segja okkur á glöggan hátt, hve mjög dúntekju hefur hrakað frá því um 1940. Ef við reyndum aðeins að glöggva okkur á því tekjulega tapi sem dúnbændur hafa orðið fyrir, þá er mér sagt af búvörudeild Sambands ísl. samvinnufélaga, en hún flytur út langmest af dúni þeim sem seldur er úr landinu, að nú sé verð á æðardúni fluttum út til Þýskalands 530 mörk á kg, en það mun vera um 66 650 kr. á kg, sem þýðir að verði útflutningur á þessu ári um 2000 kg, eins og var á s. l. ári, þá gerir það 133.3 millj., en hefði orðið 226.6 millj., ef æðarstofninn væri í þeirri stærð sem hann var fyrir 1940. Þarna munar hvorki meira né minna en 93.3 millj. í gjaldeyri fyrir þjóðina. Ég skal taka það fram í sambandi við þetta verðlag, að ekki kemur nánast allt þetta til bænda. Innifalið er auðvitað hreinsunarkostnaður og ýmis annar kostnaður. En bændur hafa góðar tekjur af dún þar sem hann er nýttur. Þegar við heyrum þessa tölu, þá hljótum við að skilja, að nokkurn kostnað ættum við að geta lagt í til að koma lífsskilyrðum æðarfuglsins aftur í eðlilegt horf og við hljótum öll að sjá, að það verður jafnvægi í fleiri þáttum í lífríki strandarinnar og landsins en aðeins hjá æðarfuglinum. Það verða einnig meiri líkur á að hinar dreifðu byggðir haldi áfram að vera byggilegar, og sá kostnaður, sem þarf að leggja í við raunsóknirnar, skilar sér áreiðanlega fljótlega aftur í þjóðarbúið, ef svo færi að slík rannsókn gerði okkur færari um að vernda æðarstofninn og gera honum kleift að komast í eðlilega stærð.

Umgengni við æðarfuglinn og umhirða á æðarvarpi er einhver skemmtilegasti þáttur sem ég þekki úr búskap. Þar kemst fólk ekki aðeins í nána snertingu við æðarfuglinn, heldur allt líf og alla náttúru sem tilheyrir því lífríki sem æðarfuglinn á heima í. Þar er engin sláturtíð, þvert á móti er allt gert til að halda lífi í þessum skemmtilega, virðulega og prúða fugli.

Hingað til lands hefur verið leitað erlendis frá eftir upplýsingum um lífshætti æðarfuglsins, en við Íslendingar höfum ekki átt nein svör við þeim spurningum. Það hefur þótt furðu gegna, að sú þjóð, sem framleiðir meira en aðrar þjóðir af æðardúni, skuli nánast ekkert um fugl þennan vita annað en hvernig á að tína dún úr hreiðri og hvernig á að hreinsa hann.

Allt ber því að sama brunni um nauðsyn þess, að við látum gera vísindalega rannsókn á æðarfuglinum: fjárhagsleg afkoma æðarbændanna, eðlilegt jafnvægi í lífríki strandarinnar og landsins og ekki síst heiður okkar sem menntaðrar þjóðar að hafa einhverja vísindalega vitund um æðarfuglinn.

Ég legg til, herra forseti, að umr. verði frestað og málinu vísað til atvmn.