Samantekt um þingmál

Fjölmiðlar

490. mál á 141. löggjafarþingi.
Mennta- og menningarmálaráðherra.

Markmið

Að tryggja gagnsæi og sporna gegn samþjöppun í eignarhaldi á fjölmiðlum.

Helstu breytingar og nýjungar

Lagt er til að bætt verði í lögin nýjum kafla um eignarhald á fjölmiðlum. Þar eru meðal annars ákvæði um eftirlit með fjölræði og fjölbreytni í fjölmiðlum, eftirlit með samruna og ákvæði um málsmeðferð. Lagðar eru til breytingar sem skýra betur hlutverk ábyrgðarmanns. Mælt er fyrir um að fjölmiðlanefnd skuli heimilt að krefjast upplýsinga um raunverulegt eignarhald á fjölmiðlum. Lagt er til að refsivert verði að miðla hatursáróðri.

Breytingar á lögum og tengd mál

Lög um fjölmiðla nr. 38/2011.
Fumvarpinu, sem lagt var fram á 140. þingi, er breytt á þann veg að felld er út grein þar sem mælt var fyrir um bann við birtingu skoðanakannana sjö dögum fyrir kosningar.

Tvívegis hafa verið lögð fram frumvörp sem byggjast á skýrslu nefndar menntamálaráðherra um íslenska fjölmiðla, frá því í apríl 2005. Þau sneru einkum að eignarhaldi á fjölmiðlum. Var það gert á 133. löggjafarþingi, 04.10.2006 (58. mál), og á 132. löggjafarþingi, 28.04.2006 (791. mál). Nefndin, sem skilaði skýrslunni, var skipuð í kjölfar þess að forseti Íslands synjaði lögum nr. 48/2004 staðfestingar. Í kjölfar synjunarinnar voru sett lög nr. 107/2004, um brottfall laganna, og kváðu þau á um skipun nefndarinnar.

Kostnaður og tekjur

Ekki er gert ráð fyrir auknum kostnaði fyrir ríkissjóð. Þó má vera að hjá Samkeppniseftirliti verði talin þörf á að fjölga athugunum og hugsanlega að ráða starfsmann til að sinna þessum málum betur.

Umsagnir (helstu atriði)

Þær umsagnir sem bárust vörðuðu flestar greinar frumvarpsins. Meðal annars voru gerðar athugasemdir við að krafist væri ríkisborgararéttar innan EES-svæðisins vegna fyrirsvarsmanns fjölmiðlaveitu. Heimild Samkeppniseftirlitsins og fjölmiðlanefndar til að hlutast til um starfsemi fjölmiðla þótti of víðtæk. Einnig var bent á nauðsyn þess að setja löggjöf um samfélagsmiðla með það fyrir augum að sporna gegn hatursáróðri í samfélaginu.

Afgreiðsla

Frumvarpið varð að lögum með orðalagsbreytingum og breytingu á gildistökuákvæði.

Aðrar upplýsingar

Tillögur nefndar um eignarhald á fjölmiðlum. Fréttatilkynning 6.10.2011. Meðfylgjandi eru tillögur nefndarinnar og bókun fulltrúa þingflokks Framsóknarflokks.
Greinargerð nefndar menntamálaráðherra um eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi (2004). Reykjavík: Menntamálaráðuneytið.
Skýrsla nefndar menntamálaráðherra um íslenska fjölmiðla (2005). Reykjavík: Menntamálaráðuneytið.

Iceland Early Parliamentary Elections 25 April 2009: OSCE/ODIHR Election Assessment Mission Report (2009). Varsjá: Organization for Security and Co-operation in Europe.

Ragnar Karlsson (2005). Ys og þys útaf engu? Skiptir eignarhald fjölmiðla máli? Málþing um skýrslu nefndar menntamálaráðherra um íslenska fjölmiðla. Félagsfræðingafélag Íslands og meistaranám í blaða- og fréttamennsku við Háskóla Íslands, 30. september 2005.

Media landscape. Vefur European Journalism Center.

Council of Europe – Information society and Media.

Löggjöf á Norðurlöndum
Noregur
Lov om eierskap i medier (medieeierskapsloven) LOV 1997-06-13 nr. 53.

Unnið er að endurskoðun laganna. Skipuð hefur verið nefnd sem skilaði skýrslu 24. apríl 2012.
Medieeierskapsutredningen: Ekspertgruppe for gjennomgang av medieeierskapslove.

Ekki er sérstök löggjöf um eignarhald á fjölmiðlum á öðrum Norðurlöndum. Sjá nánar: Medielovgivning i Norden.



Síðast breytt 03.04.2013. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.